149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það líður að lokum þessarar umræðu sem um margt hefur verið mjög góð. Hún hefur þó vonandi helst verið góð fyrir þá sem eru hér fyrir utan húsið og hafa fylgst með umræðunni. Vonandi hefur umræðan varpað ljósi á þetta flókna mál. Vonandi hefur sú umræða sem hefur farið fram fært mönnum heim sanninn um það að það er ekki af innantómri kveisni sem þingflokkur Miðflokksins hefur gengið hart fram í umræðunni. Við höfum ekki haft uppi hræðsluáróður, þrátt fyrir að svo sé rætt, heldur höfum við einungis leitast við að lýsa efanum yfir því að ekki sé nóg gert til að tryggja hagsmuni íslenska ríkisins, til að tryggja að stjórnarskráin sé ekki brotin eða á hana gengið, svo að það sé alveg ljóst að ekki sé gengið á réttindi Íslendinga til ákvörðunarvalds yfir auðlindum sínum, yfir þeirri stærstu auðlind sem orkan okkar er.

Ég vil nota þetta tækifæri og hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa verið hér í sal og í húsi nánast alla umræðuna. Það er hlutur sem við þingmenn kunnum vel að meta, þegar ráðherrar eru til taks, hlusta á umræðuna af athygli og sýna henni áhuga.

Við þingmenn Miðflokksins höfum ekki bara bent á að málatilbúnaðurinn sé ekki eins og við höfum viljað hafa hann, við höfum líka bent á að það eru til lausnir. Við höfum bent á að ef orkupakkanum eins og hann liggur fyrir núna er hafnað og hann gengur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þá getum við búið svo um hnútana að reglugerðir 713 og 714 frá 2009, reglugerðir Evrópusambandsins, verði ekki teknar upp í íslenskan rétt. Með því að semja um það í sameiginlegu nefndinni getum við eytt öllum efa um að við getum að því loknu tekið upp þá tilskipun eins og við höfum tekið upp allar tilskipanir Evrópusambandsins sem að okkur hefur verið rétt. Við höfum ekki neitað neinni tilskipun og við þurfum ekki að gera það núna ef þessi verður lagfærð eins og við leggjum til.

Við höfum varað við, og munum halda áfram að gera það í næsta máli, yfirþjóðlegri stofnun sem ACER heitir og áhrifum hennar. Við komum betur að því í næstu umræðu.

En ég endurtek að verði reglugerðir 713 og 714 undanskildar þegar við innleiðum þessa gerð ættum við að vera nokkuð trygg með að hafa hér full yfirráð, að hafa gengið eins langt eins og við getum, ekki til að einangra okkur heldur til að vera áfram í góðu sambandi við EES-ríkin, eins og við höfum verið hingað til, og til að innleiðing þessarar gerðar verði eins og ávallt á okkar forsendum, ekki á forsendum Evrópusambandsins heldur á forsendum Íslendinga.

Ef við sem erum í þessum sal og erum að reyna að útskýra fyrir þeim sem eru utan hans getum ekki útskýrt fyrir fólki hvernig í málinu liggur er ekki við fólk að sakast heldur okkur. Þá höfum við ekki lagt okkur nóg fram, höfum ekki talað nógu skýrt. Við höfum hins vegar reynt, Miðflokksþingmennirnir, að tala eins skýrt og okkur er unnt í því að leiða fram hvers vegna ekki er hægt að samþykkja þennan orkupakka eins og hann liggur fyrir óbreyttur.

Við vonum að þjóðin hafi hlustað og taki undir með okkur. Við vitum að meiri hluti Íslendinga er á móti því að taka upp þriðja orkupakkann; 91,6% kjósenda Sjálfstæðisflokksins í fyrra, 91,1% af okkar fólki, 86% af Framsóknarmönnum, þ.e. grasrótinni, 65% meira að segja hjá Viðreisn. Meiri hluti landsmanna er á móti því að taka þetta mál upp eins og það er lagt fyrir. Þess vegna vona ég að við berum gæfu til þess í nefndarstarfinu að vinna þær breytingar á málinu að hægt verði að innleiða þessa gerð á forsendum okkar Íslendinga.