149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:29]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla í minni seinni ræðu aðeins að árétta þær forsendur sem þurfa að standast svo sú leið gangi sem prófessor Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögðu til sem mögulega lausn — mögulega lausn — og er sú lausn sem ríkisstjórnin valdi að leggja fyrir þingið og við ræðum hér. Stefán Már segir í frétt á vef Stjórnarráðsins, með leyfi forseta:

„Með þessari leið er stjórnskipunarvandinn settur til hliðar að sinni og reglugerðin innleidd á þeim forsendum að þau ákvæði hennar sem fjalla um flutning raforku yfir landamæri eigi ekki við hér á landi …“

Ég spyr: Hvað ef þessar forsendur standast ekki? Einnig spyr ég: Hvað þýðir það að vandinn sé lagður til hliðar að sinni? Hvenær gæti þetta tímamark birst okkur?

Síðan segir hann, með leyfi forseta:

„Grunnforsenda þessarar lausnar er sú að þriðji orkupakkinn leggi ekki skyldur á Ísland til að koma á fót grunnvirkjum yfir landamæri heldur sé ákvörðun um það alfarið á forræði Íslands.“

Ég spyr: Hvað ef sú forsenda sem prófessorinn nefnir brestur og þetta reynist ekki á forræði Íslendinga vegna hinnar þjóðréttarlegu skuldbindinga sem við tökumst á hendur? Leggur þriðji orkupakkinn þessar skyldur á okkur?

Herra forseti. Er það rétt að verið sé að gefa það í skyn að þriðji orkupakkinn leggi einhvers konar skyldur á Ísland, að koma grunnvirkjum yfir landamæri ef t.d. eftir því yrði leitað?

Hafa fræðimenn gefið frekari eða ítarlegri álit á þeirri leið sem valin var? Nei, þeir hafa ekki einu sinni verið spurðir að því. Þessa lausn kynna stjórnarþingmenn ásamt stuðningsmönnum sínum æ ofan í æ sem hafi grandskoðað það. Málið hafi verið skoðað svo vel. Er það svo? Nei, þessi leið hefur ekki verið rannsökuð og telur, herra forseti, átta línur í áliti þeirra, og endar á orðunum: „Þessi lausn er þó ekki gallalaus.“

Ég held að menn hafi stokkið á þetta í fljótræði. Af hverju hefur þessi leið ekki verið rannsökuð betur en raun ber vitni? Vita menn ekki hvert þeir eru að fara?

Ef menn vita ekki hvert þeir eru að fara skiptir reyndar engu máli hvaða leið þeir velja, því að þeir lenda þá bara einhvers staðar.

Hvað er því til fyrirstöðu að hafna þessum tiltekna hluta af regluverkinu sem sannarlega hefur staðið mest í fræðimönnum? Hvað er að því? Hvað gerist þá? Málið fer einfaldlega fyrir sameiginlegu EES-nefndina samkvæmt 102. gr. EES-samningsins, nr. 2/1993, sem fjallar um málið og leitast við að leysa það.

En þetta er auðvitað stórhættulegt, gæti fært okkur Íslendinga aftur til steinaldar.

Helsta úrlausnarefnið er hvort þessi reglusetning gangi að einhverju leyti í berhögg við stjórnarskrá okkar. Ég hef litið svo á ef vafi er á um það hvort svo sé þá eigi að sjálfsögðu að skýra þann vafa stjórnarskránni í hag. Og er vafi? Já, bara einfaldlega. Hann er fyrir hendi.

Með þeirri þingsályktunartillögu sem við erum að byrja að ræða munum við samþykkja orkupakkann eins og hann liggur fyrir. Við erum að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara Íslands af regluverkinu, fyrirvara sem Ísland setti þegar sameiginlega EES-nefndin ákvað hinn 5. maí 2017 að fella inn í EES-samninginn þær gerðir sem pakkanum fylgja. Fyrirvarinn gengur út á að Ísland haldi að hér á landi þyrfti að gera ákveðnar lagabreytingar í tengslum við upptöku reglnanna og því þurfti aðkomu Alþingis, allt samkvæmt ákvæðum 21. gr. stjórnarskrárinnar. Með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu er Ísland búið að undirgangast að breyta lögum hér til samræmis við orkupakka Evrópusambandsins og að hér standi lög því ekki í vegi og þar með talið stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Við höfum þar með undirgengist þessa orkulöggjöf sambandsins.

Herra forseti. Hér er mörgum spurningum ósvarað og vonandi getum við fjallað ítarlega um þetta mál og þau frumvörp og þingsályktanir sem því fylgja. Ég vænti þess að þær nefndir Alþingis sem fá þetta mál inn á sitt borð skoði það gaumgæfilega og kalli til sín helstu sérfræðinga á þessu sviði.