149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:45]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka þingmönnum fyrir það sem þeir hafa lagt til málanna í dag og í gær í umræðu um þessa þingsályktunartillögu. Fjölmörg sjónarmið hafa komið fram og hluti þeirra er til þess fallinn að gera umræðuna gagnlegri. Ég minni á að þegar þriðji orkupakkinn kom fram beindust áhyggjur manna einkum að tvennu, annars vegar að því að tiltekin ákvæði hans fælu í sér brot á stjórnarskrá með of miklu framsali valds og hins vegar að hann fæli í sér skyldu til að leggja raforkusæstreng milli Íslands og innri markaðar ESB. Sú gagnrýni var tekin mjög alvarlega við undirbúning málsins. Við höfum leitað ráðgjafar hjá virtustu sérfræðingum okkar á því sviði. Þeir sérfræðingar eru allir á einu máli um að upptaka og innleiðing þriðja orkupakkans í íslenskan rétt á þann hátt sem ég hef lagt til feli ekki í sér neinn stjórnskipunarvanda. Þar að auki eru sérfræðingarnir allir sammála um að ákvörðunarvald yfir því hvort sæstrengur verði lagður milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggi eingöngu og alfarið hjá Alþingi, ekki hjá ESB, ekki hjá ACER, ekki hjá ESA, eingöngu hjá okkur Íslendingum. Hvort við tökum þátt í sameiginlegum markaði með raforku með tengingum í gegnum sæstreng er algjörlega á valdi okkar alþingismanna og framtíðaralþingismanna að ákveða. Á þeirri staðreynd grundvallast hinn lagalegi fyrirvari Íslands í málinu.

Í því sambandi skiptir líka afar miklu máli sameiginlegur skilningur með orkumálastjóra ESB á þeirri sérstöðu sem Ísland nýtur gagnvart sameiginlegum orkumarkaði. Þeir sérfræðingar sem leitað hefur verið til eru líka á einu máli um að sá sameiginlegi skilningur styrki mjög þær forsendur sem við leggjum til grundvallar innleiðingunni. Þótt yfirlýsingin hafi ekki bein lagaleg áhrif hefur hún lagalega þýðingu, enda sýnir hún fram á að samningsaðilar okkar hafa sama skilning og við á þeim forsendum sem við byggjum innleiðinguna á.

Virðulegi forseti. Mál þetta hefur verið í undirbúningi á vegum stjórnvalda og Alþingis í níu ár. Þegar núverandi ríkisstjórn kom að málinu lá fyrir að fyrri ríkisstjórn, og þá er ég að tala um ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hafði gefið upp skoðanir sínar á málinu eins og það lá fyrir þá, sem hefur verið rakið í skjölum málsins og kemur m.a. fram í svari við fyrirspurn hv. þm. Óla Björns Kárasonar.

Ég og ríkisstjórnin tókum hins vegar þá ákvörðun að fara aftur yfir málið, hnýta fastari hnúta um þau mál sem menn höfðu áhyggjur af, eins og hefur verið nefnt, og koma með málið þannig að hér væri bæði um að ræða belti og axlabönd og jafnvel fleiri varnagla. Ég tel að það hafi verið skynsamlegt og ég tel að gagn sé að því að hafa þau ítarlegu gögn í þingskjölum fyrir alla þá sem hafa áhuga á að kynna sér málið.

Núna er það Alþingis að halda áfram með málið og ég treysti því að haldið verði áfram að vinna það gaumgæfilega og vandlega. Eðli málsins samkvæmt kalla þær þingnefndir sem fara með málin á þá aðila sem þær telja nauðsynlega til að fara yfir málið og gaumgæfa þau gögn sem liggja til grundvallar.

Ég þakka aftur fyrir umræðuna og vonast til að öll umræðan um málið verði til þess að varpa ljósi á staðreyndir þess og að við göngum þannig fram að allir geti verið sáttir.

Virðulegi forseti. Ég skil mætavel að þegar mál eins og þetta kemur fram hafi margir Íslendingar, og kannski allir, þá nálgun að vilja fara varlega og um það er ekki ágreiningur. En ég tek fram, eins og ég nefndi í upphafi stuttrar ræðu minnar, að allir sérfræðingar sem að málinu hafa komið eru sammála um að valdið þegar kemur að tengingu við raforkumarkað ESB er alfarið okkar Íslendinga. Ef það fer svo fram, sem vonandi verður, að við samþykkjum þau frumvörp sem liggja fyrir er tekið enn þá skýrar fram að Alþingi Íslendinga mun taka á þeim málum ef einhvern tíma koma upp hugmyndir um slíkar tengingar.