149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[21:52]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun, EES-reglur, viðurlagaákvæði, á þskj. 1242. Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, og lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun, sem rekja má til innleiðingar þriðju raforkutilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku. Efnislega lúta breytingarnar fyrst og fremst að sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar í samræmi við kröfur tilskipunarinnar.

Með frumvarpinu er lagt til að raforkueftirlit Orkustofnunar verði eflt með því að skýra nánar hlutverk og sjálfstæði Orkustofnunar þegar stofnunin sinnir eftirliti með aðilum á raforkumarkaði. Til að geta sinnt eftirlitsskyldum sínum með sjálfstæðum hætti er að sama skapi með frumvarpinu lagt til að Orkustofnun verði falin aukin úrræði til að framfylgja raforkulögunum.

Í þriðja lagi er með frumvarpinu lagt til að gjald til að standa undir kostnaði við eftirlit samkvæmt lögunum, svokallað raforkueftirlitsgjald, verði hækkað. Í tilskipun 2009/72/EB er mælt fyrir um sameiginlegar reglur um framleiðslu, flutning, dreifingu og afhendingu rafmagns, auk ákvæða er varða neytendavernd. Tilskipunin fellir úr gildi aðra raforkutilskipun ESB frá árinu 2003. Helstu breytingar þriðju raforkutilskipunar ESB að því er Ísland varðar frá fyrri tilskipun eru aðallega tvenns konar. Í fyrsta lagi kveður tilskipunin á um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækja frá öðrum rekstri á orkumarkaði, samanber 9. gr. tilskipunarinnar. Markmið með 9. gr. hennar er að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra milli vinnslufyrirtækja og dreifiveitna annars vegar og flutningskerfisstjóra hins vegar. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí 2017 er Íslandi veitt undanþága frá 9. gr. tilskipunarinnar og kröfu hennar um eigendaaðskilnað hjá flutningsfyrirtækjum. Í okkar tilfelli er það því alfarið í okkar höndum að ákveða hvernig eignarhaldi Landsnets, sem er okkar skilgreinda flutningsfyrirtæki, sé best fyrir komið og er nú starfshópur að störfum við að fara yfir þau mál eins og ég hef áður greint frá.

Í öðru lagi eru ákvæði tilskipunarinnar um raforkueftirlitsaðila ítarlegri en ákvæði fyrri tilskipana. Gerðar eru kröfur um sjálfstæði þess aðila sem sinnir eftirliti með raforkumarkaði. Samkvæmt fyrri raforkutilskipun átti eftirlitsaðilinn að vera sjálfstæður gagnvart orkufyrirtækjum. Þriðja tilskipunin gerir aftur á móti kröfur um að eftirlitsaðilinn sé ekki einungis sjálfstæður gagnvart fyrirtækjunum sjálfum heldur einnig gagnvart stjórnvöldum og ráðherra. Með frumvarpinu er því lagt til að skýrt verði kveðið á um sjálfstæði raforkueftirlits Orkustofnunar.

Til að Orkustofnun geti sinnt lögbundnu raforkueftirliti sínu með sjálfstæðum og fullnægjandi hætti og mætt þeim nýju verkefnum sem þriðja raforkutilskipunin kveður á um er með frumvarpinu lagt til að raforkueftirlitsgjald sem kveðið er á um í 31. gr. raforkulaga hækki um 45%. Í þessu sambandi má nefna að raforkueftirlitsgjald var síðast hækkað í desember 2011.

Samanburður á annarri og þriðju raforkutilskipun ESB leiðir í ljós að verkefni raforkueftirlitsins eru aukin. Má þar nefna:

1. Nýjar skyldur á sviði neytendaverndar og eftirlits með smásölu- og heildsölumarkaði raforku. Athuganir á starfsemi raforkumarkaðar og ákvarðanir um að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að stuðla að virkri samkeppni og tryggja að markaðurinn starfi eðlilega.

2. Yfirferð og staðfesting netmála Landsnets sem eru tæknilegir skilmálar.

3. Þátttaka í samstarfsstofnun raforkueftirlitsaðila í Evrópu.

4. Nýjar heimildir til beitingar stjórnvaldsviðurlaga sem eru áminningar og stjórnvaldssektir.

5. Eftirlit og skýrslugerð um raforkuöryggi, yfirferð og samþykkt kerfisáætlunar Landsnets.

Ég vil nefna að yfirferð og samþykkt kerfisáætlunar Landsnets er hlutur sem við innleiddum og höfum gert nú þegar með breytingu á raforkulögum áður.

Með frumvarpinu er lagt til að Orkustofnun fái heimild til að áminna rekstraraðila og leggja á stjórnvaldssektir. Það er hluti af því að efla stofnunina í eftirliti sínu með aðilum á raforkumarkaði og auka sjálfstæði raforkueftirlitsins. Áminning er mikilvægt en einfalt úrræði sem eftirlitsstofnanir geta beitt og getur áminning mögulega verið jafn áhrifarík og úrræði sem fela í sér sektir. Eru þau viðurlagaákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu almennt í samræmi við heimildir annarra eftirlitsaðila í íslenskum lögum.

Samkvæmt 37. gr. þriðju raforkutilskipunarinnar er hluti af nýjum úrræðum eftirlitsaðila sá möguleiki að leggja á sektir sem nema allt að 10% af veltu fyrirtækis. Þetta ákvæði er tekið upp í frumvarpi þessu og ber að geta þess að samkeppnislög frá árinu 2005 fela í sér sambærilegt úrræði sem miðar við veltu.

Tilskipunin sem ég hef áður nefnt er hluti af hinum svokallaða þriðja orkupakka ESB og hefur á fyrri stigum farið fram mat á samræmi hans við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Vísast þar til álits utanríkismálanefndar frá 20. september 2016, álits stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá 27. nóvember 2014 um upptöku ESB-gerða á sviði raforkumála í EES-samninginn, þriðji orkupakkinn. Jafnframt vísast nánar til umfjöllunar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra sem allir hér inni þekkja ágætlega, um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017, frá 5. maí 2017, um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn sem nú liggur fyrir þinginu.

Verði þetta frumvarp óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs vegna aukinna lögbundinna verkefna raforkueftirlits Orkustofnunar aukist um 49 millj. kr. Gert er ráð fyrir að á árinu 2019 verði unnið að undirbúningi aukinna verkefna raforkueftirlits Orkustofnunar sem koma til frá og með 2020, samhliða hækkun á raforkueftirlitsgjaldi 1. janúar 2020. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs muni aukast um 47 millj. kr. frá og með árinu 2020 vegna þeirrar hækkunar á raforkueftirlitsgjaldi sem lögð er til í frumvarpinu. Er þeirri hækkun sem áður segir ætlað að mæta auknum verkefnum raforkueftirlits Orkustofnunar sem leiðir af þriðju raforkutilskipuninni.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. atvinnuveganefndar og 2. umr.