149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[22:08]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Almennt myndi ég segja að það væru líkur á því að þetta hefði jákvæð áhrif á fyrirtæki í landinu, neytendur, íslenskan almenning og fyrirtæki sömuleiðis. Regluverkið eins og er í dag opnar mjög á samkeppni á markaðnum. Við höfum hins vegar tekið okkur dágóðan tíma í að taka við okkur í því og það má alveg segja að hér ríki ekki mjög öflug samkeppni á þessum markaði.

Ég myndi vilja sjá töluvert meiri samkeppni. Við sjáum að það eru örfá fyrirtæki sem hafa farið af stað og geta boðið í mörgum tilvikum lægra raforkuverð fyrir sína viðskiptavini og það hlýtur að vera jákvætt. Þegar við leggjum fram frumvarp sem eflir þetta umhverfi enn frekar og eykur rétt neytenda þá hafa neytendur a.m.k. tækifæri til þess að taka frekar við sér og nýta þann rétt. Kannski verður öll þessi umræða til þess að það skili sér betur það jákvæða sem þó er í frumvarpinu og er í innleiðingunni og að íslenskur almenningur átti sig á þeim tækifærum sem nú þegar eru í regluverkinu og eru einmitt þar af því að við innleiddum fyrsta og annan orkupakka. Það eru nú komin mörg ár síðan það var, en eins og ég segi hefur það tekið okkur mjög langan tíma að opna á samkeppni þrátt fyrir að regluverkið hafi heimilað það í mörg ár. Ég vona innilega að neytendur sjái tækifæri í þessu og sömuleiðis verði fleiri sem spretti upp og stofni fyrirtæki og bjóði neytendum upp á öfluga þjónustu og vonandi lægra raforkuverð.