149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[22:10]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta ágæta svar. Hún staðfestir það sem mig grunaði og það sem ég las út úr þessu frumvarpi.

Mig langaði að koma aðeins inn á það sem hæstv. ráðherra nefndi um eignarhald Landsnets og ég fagna því mjög að búið sé að skipa starfshóp eða nefnd sem á að skoða það. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að grunnmannvirki og flutningsmannvirki í raforku séu í eigu þjóðarinnar og reyndar sömuleiðis orkufyrirtækin. Nú hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar verið nefnt í umræðunni í dag að þriðji orkupakkinn verði til þess að þau verði einkavædd, bútuð í sundur og ég veit ekki hvað og hvað. Mun hæstv. ráðherra standa fyrir því að einkavæða Landsvirkjun og Landsnet og allt heila klabbið, eða hvað stendur til?