149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[22:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð. Hér er verið að bæta í eftirlitsbáknið og þar stendur fremstur í flokki Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur haft sem sérstakt áhugamál að auka ríkisbáknið eins og frekast hægt er og eru það hrein öfugmæli miðað við það sem þeir hafa sagt fyrir kosningar, burt með báknið. Það er engin breyting á því.

Hér er verið að hækka eftirlitsgjaldið um ein 45%. Þá spyr maður sjálfan sig: Kemur það ekki til með að fara út í verðlagið og það verði hækkun til neytanda í þeim efnum?

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra því nú á að fjölga starfsmönnum og fjárveiting er upp á 50 milljónir: Er eftirlitið svona lélegt í dag? Þarf virkilega að bæta svo í að það þurfi að setja í þetta 50 milljónir?

Síðan væri fróðlegt að vita hvort þau orkufyrirtæki sem starfa á markaði í dag eigi að baki langan afbrotaferil. Hvers eðlis eru þessi afbrot eða brot sem á hér að fara að sekta um allt að 10% af veltu? Það væri gott að fá svar við því frá hæstv. ráðherra.

Síðan segir hér: „Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi teljandi áhrif á atvinnulíf eða fyrirtæki.“ Ég held að það verði að skýra þetta nánar. Þetta hlýtur að hafa einhver áhrif á þessi fyrirtæki. Ég held að það sé alveg ljóst.