149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[22:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Þetta frumvarp er hluti af þeim orkupakka sem við höfum rætt hér í allan dag og lýtur að því að breyta Orkustofnun í nokkurs konar ríki í ríkinu. Maður spyr sig að því hver þróunin í þessum efnum verði. Það á sem sagt að skýra nánar hlutverk og sjálfstæði Orkustofnunar, eins og segir í greinargerðinni, og aukin úrræði til að framfylgja lögunum.

Það sem ég velti fyrir mér í þessum efnum er hækkunin, 45% hækkun á þessu gjaldi. Ég nefndi það í andsvari við hæstv. ráðherra að ég hef verulegar áhyggjur af því að þetta fari út í samfélagið og komi fram í hærra orkuverði til neytenda, þ.e. hærra rafmagnsverði til heimila og fyrirtækja. Það er nú einu sinni þannig að öll svona gjöld hafa tilhneigingu til þess að leita út í verðlagið.

Það hefur verið sérstök stefna þessarar ríkisstjórnar að lækka eftirlitsgjöld og sérstaklega á bankana. Við sjáum að það á að fara að lækka bankaskattinn. Búið er að lækka gjaldið sem fjármálafyrirtæki greiða til Fjármálaeftirlitsins og nú á að fara að lækka gjaldið í Tryggingarsjóð innstæðueigenda. Þessar lækkanir koma allar til vegna þess að þessi fyrirtæki, þessar stofnanir, hafa kvartað yfir því að gjaldið væri svo hátt og þeim væri mjög þröngur stakkur skorinn í þeim efnum að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á betri kjör vegna þess að eftirlitsgjaldið væri svo hátt. Bankarnir geta ekki lækkað vextina vegna þess að bankaskatturinn er svo hár. En að sama skapi eru vísbendingar um það eftir að þessar lækkanir komu fram af hálfu ríkisstjórnarinnar til fjármálafyrirtækjanna að vextir hafi farið og fari hækkandi. Neytendasamtökin hafa komið því á framfæri að verið sé að hafa samband við þá sem eru með óverðtryggð lán og biðja þá um að bregðast við því að lán þeirra sem eru komin á gjalddaga hvað varðar breytilega vexti — að þeir megi búast við að þeir verði hækkaðir. Það er að þeirra sögn allt vegna þess eftirlitsgjaldið sé of hátt.

Ég segi það að ég tel afar líklegt að þessi mikla hækkun á gjaldinu muni fara út í verðlagið og þar með hækka raforkuverð til neytenda.

Síðan er hér kveðið á um að mögulega sé um hagsmunaárekstra að ræða, þ.e. til viðbótar er með frumvarpinu lagt til að Orkustofnun muni setja sér og starfsmönnum sínum starfsreglur þar sem kveðið verði á um góða stjórnsýslu og skilvirkni og að settar verði reglur sem koma í veg fyrir mögulega hagsmunaárekstra. Er það nú svo á Orkustofnun að þar séu í dag ekki góðir stjórnsýsluhættir og skilvirkni? Á það að gerast núna með því að gera þetta að nokkurs konar ríki í ríkinu? Það vekur nokkrar spurningar um hvernig starfsemi þessarar stofnunar er háttað í dag. Ég verð að segja að þessi texti hljómar þannig að ef ég væri starfsmaður eða forstöðumaður þessarar stofnunar hefði ég áhyggjur af því að þetta sæist hér á prenti, að það liti svo út að þessi stofnun viðhefði ekki góða stjórnsýsluhætti. Svo er rætt um mögulega hagsmunaárekstra. Hvaða hagsmunaárekstrar eru það? Ég held að það verði að skýra betur, herra forseti.

Síðan kemur hér fram að með frumvarpinu er lagt til að Orkustofnun fái heimild til að áminna rekstraraðila og að leggja á stjórnvaldssektir. Það er einmitt það sem ég ræddi áðan, þ.e. þann möguleika að leggja á sektir sem nemi allt að 10% af veltu fyrirtækis. Það eru gríðarlega háar upphæðir og geta skipt sköpum fyrir þessi fyrirtæki. Hvað t.d. með smávirkjanir? Hvaða áhrif hefur þetta á smávirkjanir og t.d. raforkubændur? Ég sé að haft var samráð við Orkustofnun við vinnslu þessa frumvarps, en ég sé ekkert um að rætt hafi verið við hagsmunaaðila. Vonandi verður það gert í nefndarvinnunni. Það er t.d. ágætisfélagsskapur sem heitir Félag raforkubænda, sem eru smávirkjanir og þjóðhagslega mjög hagkvæmar. Við eigum að sjálfsögðu að styðja þær með ráðum og dáð. En spurningin er þessi: Getur þetta ákvæði hreinlega komið í veg fyrir að menn hafi áhuga á því að fara út í smávirkjanir? Því þarf að svara. Það er mjög mikilvæg spurning og það má ekki gerast að stjórnvöld leggi einhverja steina í götu þeirra frumkvöðla sem raforkubændur óneitanlega eru.

Ég kom inn á það í andsvari áðan að það birtist manni þannig að eftirlitið í dag sé bara lélegt. Það vekur náttúrlega upp spurningar. Hér kemur fram að fjórir starfsmenn starfi við raforkueftirlitið. Nú er talað um að þessi orkupakki, þriðji orkupakkinn, hafi engin áhrif hér á landi. Hvers vegna þarf þá að auka þetta eftirlit? Ég skil það ekki alveg, og það yfir höfuð að gera þessa stofnun svona mikilvæga. Jú, verið er að framfylgja einhverjum kröfum frá Evrópusambandinu, eins og oft vill verða þegar við innleiðum tilskipanir með þessum hætti. En maður spyr sig óneitanlega að því hvort hér hafi orðið einhverjar breytingar á þessum markaði undanfarið sem réttlæti það að bæta eigi verulega í þetta eftirlitshlutverk.

Síðan er hér er talað um að ekki sé gert ráð fyrir að frumvarpið hafi teljandi áhrif á atvinnulíf eða fyrirtæki. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það verður að skýra þetta út nánar. Hvað þýðir það að hafa ekki teljandi áhrif? Einhver áhrif verða og það er alveg nauðsynlegt að fá að vita það.

Síðan er rætt um þá fjárveitingu sem fara á í þetta. Talað er um tæpar 50 milljónir og að eitthvað muni koma til baka af því í formi eftirlitsgjaldsins. Það er engu að síður umhugsunarefni í þessu tilfelli að alltaf skuli vera bætt í ríkisbáknið með þessum hætti. Hér er þá komin enn ein fjárveitingin sem fara þarf í fjármálaáætlun o.s.frv. og væntanlega hækka hana. Og svo verða verðlagshækkanir ofan á það, venjubundnar verðlagshækkanir um áramót o.s.frv., þannig að þetta er bolti sem farinn er að rúlla. Svo spyr maður sjálfan sig: Hvers vegna liggur það ekki fyrir í hverju nákvæmlega þetta eftirlit felst?

Ég spurði ráðherra að því áðan hvort það væri einhver sérstakur afbrotaferill þessara fyrirtækja, þ.e. hvað er það sem er svona mikilvægt að bæta í á þessum tímapunkti? Við höfum virka samkeppni á þessum markaði. Neytendur geta keypt raforku frá fleiri en einum framleiðanda, fleiri en einu fyrirtæki. Ég get farið hér bara í tölvuna mína og ákveðið að hefja raforkuviðskipti við t.d. Orkuveitu Reykjavíkur. Í dag er ég í viðskiptum við Hitaveitu Suðurnesja, eða HS Orku eins og sagt er. Ég get einfaldlega bara breytt þessu á morgun þannig að það ríkir frelsi og samkeppni á þessum markaði. Ég hef ekki orðið var við að það hafi verið eða sé eitthvert verðsamráð í þeim efnum.

Þá erum við kannski komin að Samkeppniseftirlitinu. En í öllu falli finnst mér að skýra verði hvað réttlætir þetta aukna eftirlit annað en þessi innleiðing, vegna þess eins og ég sagði áðan á þessi orkupakki ekki hafa nein áhrif hér á landi og er búið að hamra á því hér í allan dag að við þurfum ekki hafa neinar áhyggjur af þessu því að hann muni ekki hafa nein áhrif hér á landi, en svo þarf allt í einu að fara að auka eftirlitið o.s.frv. Hvers vegna þarf að gera það? Það verður að skýra það allt út. Ég held að við verðum að fá nánari upplýsingar um það hver stefna stjórnvalda er hvað þetta eftirlit varðar. Er það einungis til þess að þóknast þessum orkupakka og því sem Evrópusambandið leggur hér fyrir okkur, eða eru einhverjar aðrar ástæður þarna að baki? Ég held að það sé mjög mikilvægt að fá það fram.

Ég vil enn og aftur ítreka áhyggjur mínar gagnvart smávirkjunum, hvort þetta geti dregið úr nýsköpun og haft áhrif á þessar smávirkjanir, því að þær skipta okkur verulegu máli. Þær skipta okkur verulegu máli á ákveðnum landsvæðum, eins og t.d. á Suðurlandi. Þar skiptir það miklu máli þegar við horfum til orkuöryggis að því leytinu til að hér gætu náttúruhamfarir valdið því að rafmagnsframleiðsla minnkaði. Þess vegna skiptir verulegu máli að við höfum varaafl hvað það varðar, litlar rafstöðvar, þ.e. smávirkjanir sem geta þá hlaupið undir bagga að einhverju leyti. Ef verið er að leggja stein í götu slíkra fyrirtækja með þessu er það náttúrlega alvarlegt mál vegna þess að það skiptir okkur verulegu máli að við getum treyst á að þær hækkanir sem hér eru fyrirsjáanlegar fari ekki út í verðlagið. Það er alveg ljóst að þetta mun hafa í för með sér hækkanir fyrir þessi fyrirtæki og það verulegar hækkanir upp á 45%, og svo þessi sektarákvæði, sem einnig þarf að skýra nánar.

Mér finnst það ekki nógu vel reifað hvaða afleiðingar þetta getur haft fyrir okkur. Einungis er haft samráð við Orkustofnun og sagt að að loknu samráði hafi frumvarpið verið sett á vefsíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til almennrar kynningar og umsagnar. Nokkrar athugasemdir bárust er lutu almennt að samspili orkumála við EES-samninginn og vörðuðu efni sem er utan við efnisatriði frumvarpsins.

Hversu vel hefur þetta verið kynnt að öðru leyti? Hefur þetta verið kynnt þessum hagsmunaaðilum ítarlega? Því þarf að svara og þarf nefndin að leggjast yfir það. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að nefndin kalli til sín alla þá sem hagsmuna eiga að gæta í þessu máli. Þar nefni ég sérstaklega raforkubændur, auk þess sem svara verður því hvort þetta hafi áhrif á rannsóknir. Það er mikilvægt að við stuðlum að því að fram fari rannsóknir, bæði hvað varðar orkuöflun o.s.frv., og þau fyrirtæki stunda rannsóknir. Mun þetta hafa áhrif á að draga úr rannsóknum o.s.frv.? Það eru margar spurningar (Forseti hringir.) í þessu, herra forseti, sem er ósvarað og mikilvægt er að fá svör við.