149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[22:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir ræðuna. Ég hélt reyndar að við værum að ræða þetta frumvarp um að efla Orkustofnun. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki minnst á Orkustofnun í sinni ræðu, (Gripið fram í.) en notaði frekar tækifærið til að setja út á málflutning Miðflokksins. Hv. þingmaður verður bara að sætta sig við það að Miðflokkurinn hefur aðra skoðun en Vinstri grænir hvað þetta varðar. Auðvitað vekur það athygli að Vinstri grænir, sem voru á móti orkupakka eitt og tvö, skuli ætla að samþykkja þennan orkupakka. Við gætum þess vegna rætt það, hv. þingmaður.

Ég ætla hins vegar að spyrja hvort hv. þingmaður hafi ekki áhyggjur af því — nú þykist ég vita að hann sé fylgjandi smávirkjunum og raforkubændum — að þetta frumvarp komi til með að skerða möguleika raforkubænda jafnvel til að setja á laggirnar nýjar smávirkjanir. Ég held að það væri fróðlegt að fá það fram hjá hv. þingmanni.

Síðan hefði ég áhuga á því að fá skoðun hv. þingmanns á því hvort hann telji að eftirlitið eins og því er háttað í dag sé ekki nægilegt. Hér á að fjölga starfsmönnum hjá Orkustofnun og gera hana að öflugri stofnun, nokkurs konar ríki í ríkinu. Ég spyr hvort (Forseti hringir.) hann þekki eftirlitið eins og því var háttað og er háttað í dag og hvort það sé (Forseti hringir.) af skornum skammti.