149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[22:52]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er þetta, herra forseti, mjög svo gildishlaðna orð kannski, eða ef eða það gæti. Við erum að setja lög sem segja okkur það að sæstrengur verði ekki tengdur við Ísland eða yfir höfuð búinn til án þess að Alþingi samþykki það. Nú vil ég meina það að ef þetta hefði einhvern tímann komið upp í framtíðinni og burt séð frá öllum þriðja orkupakka þá hefði Alþingi hvort eð er skipt sér af því með lagasetningu. Það getur vel verið að einhverjir hafi áhuga á því að kæra þetta, þ.e. Evrópusambandið eða einhver annar aðili, og láta reyna á þennan lagalega fyrirvara. Þá bara tökum við þann slag. Við getum aldrei tryggt meðan við erum í alþjóðlegu samstarfi, hvort sem það er um kjötfrystingu eða eitthvað annað, að þeir lagalegu fyrirvarar sem við setjum séu 100% tryggir. Og við skulum ekki gleyma því að sjálfur Stefán Már Stefánsson, sem er mest tilvitnaði maður dagsins, hefur við okkur sagt: Það er engin leið í þessu alþjóðlega samstarfi sem er fullkomlega gallalaus. Af hverju? Af því að í lögum og í lagalegu starfi er ávallt efi. Það er enginn lögfræðingur þannig í velflestum málum, skulum við segja, að hann fullyrði að hans leið sé sú eina rétta. Það eru vondir lögfræðingar sem gera það. Þess vegna ber ég mikla virðingu fyrir Stefáni Má Stefánssyni, að hann segir að þessi eða hin leiðin sé ekki alveg gallalaus.

Ég hef engar áhyggjur af því að svo komnu máli að þetta sem við köllum fyrirvara, (Forseti hringir.) sem er bara eðlileg málsmeðferð, muni valda okkur vandræðum.