149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[22:58]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom hér upp í ræðu áðan og notaði ræðutíma sinn að mestu til að kvarta yfir því að Miðflokksmenn skildu ekki máflutning sinna félaga í málefnum þriðja orkupakkans, sem er auðvitað hinn eini rétti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að benda honum á að við búum a.m.k. enn þá í lýðræðisþjóðfélagi þar sem jafnvel þeir sem eru á andstæðri skoðun en hv. þingmaður hafa málfrelsi hér á landi, þá sérstaklega hér á hinu háa Alþingi okkar Íslendinga.

Við ræðum hér breytingar á lögum sem tengjast hinum svokallaða þriðja orkupakka og ætla ég að gera nokkrar athugasemdir við frumvarpið. Sumar hafa reyndar komið fram áður, eins og t.d. það að forsvarsmenn þriðja orkupakkans hafa ítrekað talað um að þessi pakki hafi engin áhrif hér á landi. Það virðist ekki vera svo varðandi vöxt Orkustofnunar, vegna þess að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þessi stofnun stækki töluvert. Raforkugeirinn hefur verið tiltölulega rólegur hér á Íslandi. Megnið af raforkunni og orkuframleiðslunni hefur verið í höndum ríkisins og í eigu ríkisins og okkar Íslendinga, þannig að það verður rólegt yfir þessum geira, en þarna er gert ráð fyrir verulegri stækkun Orkustofnunar. Lagt er til að fjárheimildir til stofnunarinnar verði auknar um tæpar 50 millj. kr., auk þess sem til stofnunarinnar eiga að renna hækkun eftirlitsgjalds og eftirlitsgjaldið sjálft og einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að til stofnunarinnar renni kostnaður sem hlýst af álagningu stjórnvaldssekta.

Ég vil bara benda á þessa hækkun á eftirlitsgjaldi sem er veruleg. Hún er 45%. Í andsvari hér áðan svaraði hæstv. ráðherra því að gjaldið hefði ekki hækkað í mörg ár, en þetta er um helmingshækkun sem er langt umfram alla verðbólgu síðustu ár. Ég er sammála hv. þm. Birgi Þórarinssyni þegar ég álykta sem svo að þessi hækkun muni velta beint út í verðlag raforku.

Í frumvarpinu er lagt til að Orkustofnun geti lagt á stjórnvaldssektir sem numið geta allt að 10% af veltu fyrirtækis. Mér finnst það vel í lagt. Ég hef nú sagt þessa setningu áður af öðru tilefni varðandi stjórnvaldssektir, en mér finnst þetta vel í lagt. 10% er ansi mikið og þarf oft ekki svo hátt hlutfall af veltu fyrirtækis til að hreinlega að varpa því um koll ef um t.d. nýtt fyrirtæki væri að ræða. Eru þessi 10% einhver fyrirmæli úr þriðja orkupakkanum sem hægt er að finna annars staðar í orkupakkanum? Eru fyrirmæli um þetta í reglugerðunum? Ég man það ekki eða hef kannski ekki séð það. Það væri ágætt að fá það þá fram.

Þessar sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtu. Ég geri auðvitað athugasemd við það eins og ég hef svo oft gert áður: Hver ætlar að segja til um hver þessi kostnaður verður? Auðvitað seilast menn í að hafa þennan kostnað og reikna þennan kostnað í bókhaldinu eins hátt og hægt er til að fá stærri bita af þessari köku. Þannig að ég spyr: Hver reiknar þennan kostnað? Hvaða eftirlit er með honum? Hver verður þarna yfir? Gert er ráð fyrir að Orkustofnun verði að miklu leyti alls ekki sett undir ráðherra. Orkustofnun er tekin undan ráðherra. Þetta er ein af þeim spurningum sem vakna: Hver ætlar að hafa eftirlit með því hvernig þeir reikna sér kostnaðarhlutdeild af þessum sektum? Þetta rennur til þeirra sjálfra.

Ég hef spurningar um vald ráðherra yfir stofnuninni, hvers eðlis það er. Og hver er það þá sem stjórnar Orkustofnun? Hver er það sem hefur boðvald yfir þeim í raun og veru? Kemur það fram í greinargerðinni? Ég sá það ekki, en ef það er þarna þá er það vel. En hver hefur boðvald yfir Orkustofnun ef það er ekki ráðherra? Og þeir sem ekki fallast á niðurstöðu ákvarðana Orkustofnunar, hvert geta þeir leitað? Tekið er fram í frumvarpinu að hluta af þessum ákvörðunum er hægt að kæra til úrskurðarnefndar raforkumála. En hvað með hinn hlutann sem ekki fellur þar undir? Hvert er hægt að skjóta þeim ákvörðunum? Eða hafa þeir sem verða að hlíta þessum ákvörðunum enga möguleika á að fá ákvarðanir Orkustofnunar endurskoðaðar? Og hvar þá, ef svo er? Hvar yrðu þær endurskoðaðar?

Svo í lokin: Hver er aðkoma ESA eða eftir atvikum ACER að Orkustofnun? Af hverju er það ekki reifað í greinargerðinni? Hér stendur til að innleiða þriðja orkupakka Evrópusambandsins og þar er að finna fjöldann allan af fyrirmælum um tengsl þeirra stofnana sem ég nefndi við stofnanir sambærilegar orkustofnun í hverju landi fyrir sig. Vita menn hvernig þeir sjá þetta fyrir sér, hvernig þessi tengsl eru? Ef þessi tengsl eru engin þyrfti það að koma fram í greinargerð.

Ég legg til að sú nefnd sem fær þetta mál til skoðunar skoði þetta sérstaklega og komi með álit sitt á þessu, hvort engin tengsl séu þarna á milli með tilliti til þriðja orkupakka Evrópusambandsins og þar komi fram álit þessara sérfræðinga þegar frumvarpið kemur aftur til 2. umr.