149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[23:28]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðu um þetta mál. Það eru örfá atriði sem mig langaði að nefna. Að einhverjar leiðbeiningar séu hér gagnvart Orkustofnun er enginn áfellisdómur yfir stofnuninni. Stjórnsýslan þar er í ágætisstandi. Hvorki umboðsmaður Alþingis né Ríkisendurskoðun hafa gert athugasemdir við starfsemi Orkustofnunar, þannig að þetta er enginn áfellisdómur yfir þeim. Það er einfaldlega þannig að þegar stofnun fær aukið sjálfstæði eru gerðar auknar kröfur og það er ekkert óeðlilegt við það.

Hér var fullyrt áðan í máli hv. þm. Karls Gauta Hjaltasonar, að þessi hækkun væri langt umfram verðlag. Það er sjálfsagt að greina það. Mér tókst ekki að gera það á meðan ég sat undir umræðunum. Árið 2011 var gjaldið síðast hækkað þannig að það eru komin átta ár síðan, og svei mér þá ef þetta er ekki bara ansi nálægt því.

Mikið var spurt um og því velt upp hvort þessar 47 milljónir myndu skila sér út í verðlag. Þá þýðir þetta á dreifiveitur 1 eyri á hverja kílóvattstund. Til samanburðar erum við með 0,3 kr. í jöfnunargjald. Það er þá samtals um 1 milljarður króna, þannig að þetta eru 47 milljónir, þannig að ég myndi halda að það væru algerlega hverfandi áhrif sem þessi hækkun hefði almennt á gjaldskrár. En það er sjálfsagt að láta greina það sérstaklega fyrir nefndina og ég held að það væri bara gott mál að gera það.

Hér er því velt upp af hverju hækka þurfi gjaldið. Þá er það annars vegar vegna þess að það hefur ekki verið gert í átta ár og, líkt og hv. þingmenn hafa svo sem farið yfir, eru hér aukin verkefni fyrir stofnunina. Orkustofnun voru falin aukin verkefni árið 2015 varðandi kerfisáætlun Landsnets, yfirferð og staðfesting á henni, sem er töluverð vinna, en gjaldskráin var ekki hækkuð og ekki stækkaði báknið þá, engir aukafjármunir fóru til stofnunarinnar þá. En hér er um að ræða nýjar skyldur á sviði neytendaverndar og eftirlits með smásölu á heildsölumarkaði raforku, eftirlit, skýrslugerð um raforkuöryggi og yfirferð netmála og fleiri þættir. Það skýrir þessa hækkun.

Varðandi Orkustofnun og áhrif ACER og/eða ESA á þá stofnun eru þau áhrif engin á meðan við erum ekki tengd.