149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög.

792. mál
[23:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Nú er komið að þeim fyrirvara sem ríkisstjórnarflokkunum og þeim sem eru fylgjandi tilskipuninni um þriðja orkupakkann hefur orðið tíðrætt um, þ.e. að settur verði þessi lagalegi fyrirvari sem eigi að tryggja það að orkupakki þrjú hafi engin áhrif, en engu að síður á að innleiða orkupakkann.

Ég hef miklar efasemdir um að þessi leið sé fær vegna þess að margt bendir til að hún brjóti í bága við EES-samninginn og sé þar með á skjön við Evrópurétt. Þetta er ósköp einfalt mál. Annaðhvort verður þingið og við að samþykkja orkupakka þrjú eins og hann kemur frá sameiginlegu EES-nefndinni eða að hafna honum alfarið. Það er ekki hægt með öruggum hætti að samþykkja aðeins hluta af þessum pakka. Við þekkjum það og við höfum reynslu af því í gegnum hið svokallaða kjötmál eða frystiskyldumálið þar sem lagasetning þess efnis að við ætlum samt sem áður ekki að leyfa innflutning á hráu kjöti stenst ekki samninginn. Málið var kært eins og við þekkjum. Við erum skaðabótaskyld og höfum þurft að borga háar fjárhæðir í þessum efnum. Þess vegna hræðist ég mjög að þessi leið dugi ekki og hef miklar efasemdir í þeim efnum. Hér getur myndast grundvöllur fyrir málshöfðun á hendur ríkissjóði og íslenskum dómstólum.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: (Forseti hringir.) Er ekki veruleg hætta á því að þetta mál fari á sama veg og hráakjötsmálið, þ.e. þetta ákvæði verði kært og verði dæmt ólögmætt?