149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög.

792. mál
[23:39]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svarið. Hæstv. ráðherra nefnir að það sé engin skylda til þess að leggja sæstreng. En ætla stjórnvöld að koma í veg fyrir það ef óskir berast um það frá t.d. þýska stórfyrirtækinu á sviði raforkumála, E.ON, sem gæti óskað eftir því að fá að leggja hér sæstreng? Er það þá ekki brot á EES-samningnum ef stjórnvöld ætla að segja nei í þeim efnum? Getum við nokkuð komið í veg fyrir það?

Það er ekkert til sem heitir orkupakki þrjú á íslenskum forsendum, það er bara orkupakki þrjú og við verðum að sætta okkur við það að við getum ekki fengið einhverja undanþágu frá honum. Það er alveg klárt mál. Þó svo að hæstv. utanríkisráðherra hafi rætt við orkumálastjóra Evrópusambandsins og fengið þar einhverjar upplýsingar eða einhvern sameiginlegan skilning um að við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu máli, þá er það ekki skuldbindandi að þjóðarétti og hefur ekkert gildi.

Þessar áhyggjur eru að mínu mati, herra forseti, réttmætar. Sporin hræða í þessum efnum. Við höfum reynt að setja sérstök lög til að tryggja það að við gætum haft einhverja sérstöðu aðra en sem um getur í samningum við Evrópusambandið á sviði EES-samningsins. Það hefur ekki gengið eftir. Hvers vegna má ætla að það muni ganga núna? Ég skil þetta ekki alveg, herra forseti.