149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög.

792. mál
[23:51]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að við viljum að sjálfsögðu hafa öflugt atvinnulíf og umhverfi fyrir fyrirtæki og efla samkeppnishæfni fyrirtækja. En við vitum líka að þegar þau fyrirtæki komu hingað til lands — þau hjálpuðu okkur m.a. við að byggja upp mjög öflugt flutningskerfi á sínum tíma og þetta eru fyrirtæki sem skipta okkur ótrúlega miklu máli og skapa fjölda starfa og mikil útflutningsverðmæti — þá seldum við raforku til þeirra fyrir töluvert lægri fjárhæðir en við gerum í dag. Ég held að það hljóti að vera hagur okkar allra að við seljum raforkuna á verði sem skilar sér heilt yfir án þess að ganga á það samkeppnisumhverfi sem fyrirtækin starfa í.

Ég ætla að mótmæla því að það sé útúrsnúningur að svara spurningunni. Það var spurt um það hversu mikil vinna hefði farið í það að skoða sæstreng og þrátt fyrir að spurningin hafi snúið helst að Landsvirkjun þá hlýtur að vera eðlilegt að svara því líka hver þáttur stjórnvalda hefur verið í því. Það er, leyfi ég mér að segja, útúrsnúningur að kalla það útúrsnúning að ég svari þeirri spurningu sem að mér var beint.

Sá fyrirvari sem gerður var á sínum tíma af hv. þingmanni og formanni Miðflokksins, fyrrum forsætisráðherra Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sneri að verðinu. Á þeim tíma lá algjörlega fyrir hvert innihald þessarar þriðju raforkutilskipunar var. Það virðist vera a.m.k. þannig að menn hafi ekki haft meiri áhyggjur af málinu þá en svo að það hafi verið helsta áhyggjuefnið.