149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

raforkulög.

792. mál
[23:53]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Enn kem ég af sömu hvötum og ég hef gert fram til þessa í dag. Ég hef enn efasemdir um að það sem hér er boðað muni halda. Enn kemur til umræðu frumvarp sem hangir saman við hinn svokallaða þriðja orkupakka. Lagafrumvarp þetta, með leyfi forseta, hljóðar svo:

„Á eftir 5. mgr. 9. gr. a laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fer samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“

Hér er ætlunin að breyta raforkulögum og viðhald á þeirri blekkingu að við munum, eftir að hafa innleitt tilskipun um títtnefndan orkupakka, hafa sjálfræði um það hvort hingað verði lagður sæstrengur. Það ætti öllum að vera ljóst hver fyrirætlunin er með orkupakkanum. Hún gæti virst göfug í huga margra, en staðreyndin er sú að við erum bær til þess að framleiða mikið magn af grænni orku. Það mun því líklega verða mikill þrýstingur í framtíðinni á að fá að tengjast landinu, enda nær öruggt að tækni framtíðarinnar mun leysa vandamál því samfara.

Hvað framtíðin ber í skauti sér er eflaust ekki alltaf hægt að spá fyrir um. Hins vegar má öllum vera ljóst að ásælni í orkuauðlindir okkar er sífellt að ágerast. Við höfum dæmin fyrir framan okkur. Fjárfestingar í orkugeiranum þykja mjög arðvænlegar og það þarf engan stóran spámann til að sjá að þrýstingur úr þeirri átt mun aukast jafnt og þétt.

Að því sögðu þá ítreka ég þakkir mínar sem ég færði í ræðu minni áðan til hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar fyrir að staðfesta í máli sínu að við getum ekki með slíkri lagasetningu 100% tryggt okkur að þetta haldi.