149. löggjafarþing — 91. fundur,  9. apr. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[23:56]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar á þskj. 1252, um breytingu á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Hinn 11. júní 2018 samþykkti Alþingi þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í þeirri þingsályktun er að finna almenn atriði sem hafa ber að leiðarljósi við uppbyggingu flutningskerfis raforku, þar með talið við gerð kerfisáætlunar.

Hafa þau áhersluatriði ákveðna stöðu að lögum þar sem fram kemur í 1. mgr. 9. gr. raforkulaga að flutningsfyrirtækið skuli byggja flutningskerfið upp að teknu tilliti til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Að sama skapi kemur fram í 5. mgr. 9. gr. a raforkulaga að nánari útfærsla mannvirkja vegna uppbyggingar flutningskerfisins ráðist af stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Í núgildandi þingsályktun um þetta efni er að finna skýrar áherslur sem eru bindandi við gerð kerfisáætlunar, t.d. um að ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið eða að við val á línuleið fyrir raflínur skuli gæta að verndarákvæðum friðlýstra svæða.

Með breytingartillögu þeirri sem hér er lögð fram er lagt til að nýtt áhersluatriði bætist við í A-lið þingsályktunarinnar sem varðar mögulegar tengingar raforkukerfisins við raforkukerfi annarra landa.

Samhliða þessu þingmáli er lagt fram frumvarpið sem ég mælti fyrir hér á undan þar sem lagt er til að við raforkulög bætist ákvæði þess efnis um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Með því frumvarpi er búin til tenging í raforkulögum yfir í þá þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram.

Eins og fram kom í umfjöllun um áðurnefnt frumvarp má rekja tilefni þingmálsins til þess að um nokkurra ára skeið hefur verið til skoðunar að tengja íslenska raforkukerfið við raforkukerfi annarra landa. Hefur þar fyrst og fremst verið horft til Bretlands. Má þar m.a. vísa til skýrslu sem starfshópur á vegum stjórnvalda skilaði í júlí 2016 þar sem fram komu ýmsar greiningar varðandi raforku um sæstreng milli Íslands og Evrópu.

Til að undirstrika það er talið rétt að kveða sérstaklega á um það í fyrirliggjandi þingsályktun sem samþykkt var, eins og áður segir, í júní 2018. Enginn vafi leikur á því að íslensk stjórnvöld ákveða hvaða innlendi aðili veitir leyfi fyrir slíkum streng og á hvaða forsendum. Nefna má að í yfirlýsingu norskra stjórnvalda í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakkans er skýrt tekið fram að ákvörðun um lagningu nýrra sæstrengja sé ávallt á forræði norskra stjórnvalda. Hið sama gildir um Ísland. Því er óhugsandi að sæstrengur yrði lagður til landsins gegn vilja Íslendinga og það er á valdi íslenskra stjórnvalda og Alþingis að ákveða hvort heimila skuli að leggja, eiga og reka raforkusæstreng til og frá Íslandi.

Í fyrsta lagi er tekið skýrt fram í þingsályktunartillögunni að ekki verði ráðist í tengingu íslenska raforkukerfisins við raforkukerfi annars lands nema að undangengnu samþykki Alþingis, í öðru lagi að samþykki skuli liggja fyrir áður en framkvæmdir sem varða slíka tengingu geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar Landsnets og í þriðja lagi að til grundvallar slíkri ákvörðun Alþingis skuli liggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkrar tengingar og framkvæmda vegna hennar.

Hér er undirstrikað að lokaorðið í slíkri ákvarðanatöku er ávallt á hendi Alþingis. Að sama skapi er þetta í samræmi við hlutverk og stöðu kerfisáætlunar lögum samkvæmt sem og þingsályktun sem ég hef hér fjallað um. Samþykki Alþingis er því samkvæmt tillögunni nauðsynlegur undanfari þess að unnt sé að óska eftir heimildum frá stjórnvöldum vegna framkvæmdarinnar í samræmi við lög hverju sinni.

Taka ber fram að til að fylgja framangreindu ferli eftir, ef að því kæmi, þyrfti að gera ýmsar breytingar á lögum. Ekki er tímabært að leggja slíkt frumvarp fram fyrr en áform liggja fyrir um að leggja ákvörðun um tengingu með sæstreng fyrir Alþingi. Könnun á því að leggja raforkusæstreng frá Íslandi til Evrópu er einfaldlega ekki komin á það stig.

Um efnisatriði þriðja orkupakka ESB að öðru leyti vísast almennt í tillögu utanríkisráðherra og það frumvarp sem ég hef nú þegar mælt fyrir.

Hæstv. forseti. Að lokum legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. atvinnuveganefndar og til síðari umr.