149. löggjafarþing — 91. fundur,  10. apr. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[00:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Ég hef eina spurningu til hæstv. ráðherra hvað þetta mál varðar, hvernig málið lýtur að ákveðnu fyrirtæki, HS Orku. Það fyrirtæki er að hluta til í einkaeigu. Þar eru meðal eigenda aðilar sem hafa talað fyrir því að leggja sæstreng og flytja orkuna úr landi. Hvernig horfir málið við fyrirtæki eins og HS Orku, sem hefur alla burði til að framleiða orku úr íslenskri orkuauðlind og flytja hana síðan úr landi í gegnum sæstreng? Ég þekki ekki nákvæmlega hvernig þetta mál lýtur að því. En sú staða gæti komið upp að fyrirtækið myndi óska eftir því. Þá væri gott að fá skoðun ráðherra og útskýringar á því hvort þetta girði eitthvað fyrir áform af því tagi.