149. löggjafarþing — 91. fundur,  10. apr. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[00:02]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. HS Orka hefur verið í einkaeigu í áratug, en mér skilst að sá eigandi sem hér um ræðir sé ekki lengur eigandi í því fyrirtæki. Einu viðskiptavinir Landsnets samkvæmt lögum eru annars vegar dreifiveitur og hins vegar stóriðjan, þannig að það er ein löggjöfin sem við þyrftum þá sérstaklega að breyta ef við ætluðum að leggja sæstreng. En ef eitthvert fyrirtæki, eins og t.d. fyrirtæki í einkaeigu, hefði áhuga á því að leggja hingað sæstreng, þá er það sem við getum sagt, ef það er það sem við viljum, að segja einfaldlega nei. Við getum líka tekið það til sérstakrar skoðunar. Við getum farið í slíkt mat, efnahagslegt, umhverfislegt, samfélagslegt mat, á því hvort það sé góð hugmynd eða ekki. Í framhaldinu færi það þá á kerfisáætlun Landsnets ef við samþykktum að gera það. En við getum líka einfaldlega sagt að við ætlum ekki að leggja sæstreng, mat okkar sé að það sé ekki góð hugmynd.