149. löggjafarþing — 91. fundur,  10. apr. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[00:04]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mér fannst það ekki alveg nægilega skýrt. Í þessu tilfelli, HS Orku, er þetta öflugt fyrirtæki og það hefur m.a. komið fram bæði í ræðu og riti að þeir hafa fulla getu til að framleiða og selja orku í gegnum sæstreng. Nú er fyrirtækið landfræðilega statt þannig að línulögn að fyrirhuguðum sæstreng er mjög lítil vegalengd þannig að það ætti ekki að vera fyrirstaða. Er stjórnendum stætt á að koma í veg fyrir að einkafyrirtæki geri þessa hluti? Það væri gott að fá það fram. Erum við ekki að undirgangast heilt markaðssvæði í raforkumálum? Þessu þarf að svara og væri gott að fá greinargóð svör hvað það varðar. Er ekki hugsanlegt að sú ákvörðun að neita því fyrirtæki verði kærð og fari sína leið og við myndum hugsanlega tapa því máli? Hvernig horfir við okkur þá? Ef ráðherra gæti aðeins skýrt þetta á einfaldan hátt væri það vel þegið.