149. löggjafarþing — 91. fundur,  10. apr. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[00:12]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Forræðið sem snýr að ákvörðunum varðandi sæstreng er algerlega á forsendum Íslendinga. Við höfum aldrei í öllu þessu ferli verið að gefa frá okkur valdið sem snýr að ákvarðanatökum. Hvað varðar þennan PCI-lista, þar sem gert er ráð fyrir í gögnum að verði skoðaður árið 2027, þá er það umsókn frá Landsneti árið 2015 sem kom okkur á þann lista, það kom ekki annars staðar frá. Af hverju vilja menn ekki hafa þær forsendur á réttum stað? Það var Landsnet sem óskaði eftir því 2015. Það er ekki eins og hinir stóru, vondu úti í heimi standi í röðum eftir því að vera með umsókn um að tengjast hingað með sæstreng. Þetta er og hefur verið og verður á okkar forræði. Þessi þriðja orkutilskipun hefur bara snúist um grunnvirki yfir landamæri. Hún hefur hvorki snúist um orkuflutninga, hvernig staðið er að þeim, né ný grunnvirki eða annað heldur bara núverandi, og hefur heldur ekki snúist um að einhver aðili úti í hinum stóra heimi geti skipað okkur fyrir hvernig við framleiðum orku og setjum upp virkjanir og annað í því samhengi. Ég held að ljóst sé að fram hafi komið í umræðunni og bent hefur verið á aðila, okkar færustu menn á þessu sviði, umsagnir þeirra og álitsgerðir, (Forseti hringir.) að allt sé þetta gert rétt með þeim hætti eins og talað hefur verið um, þ.e. það sem er verið að leggja til.