149. löggjafarþing — 91. fundur,  10. apr. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[00:14]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka spurningarnar. Í máli mínu ræddi ég ekki um það að Íslendingar gefi frá sér ákvörðunarvald. Eins og þingsályktunartillagan sem hér liggur frammi ber með sér er það Alþingi Íslendinga sem hefur úrslitavaldið í því hvort verður lagður sæstrengur eða ekki. Ég hef áhyggjur af valdframsalinu, hugsanlegu valdframsali, sem kemur fram í gerðunum sem hafa verið margnefndar hér, en ekki því að Íslendingar geti ekki ákveðið að það sé í þeirra valdi að taka ákvarðanir um sæstreng. Ég hef ekki áhyggjur af því.

Það sem hv. þingmaður nefndi varðandi umsóknina frá Landsneti, allt sem kom fram í ræðu minni áðan stendur þrátt fyrir það, að það er þannig að ESB getur tekið út og sett inn á nefndan lista og við vitum að áhugi er frá örugglega mörgum að nálgast þessa grænu eftirsóknarverðu orku sem við búum yfir. Það sem í mínum huga skiptir mestu máli er að við Íslendingar ráðum sjálf yfir orkuauðlindum okkar og framseljum ekki vald okkar eins og þessar gerðir virðast benda til.