149. löggjafarþing — 91. fundur,  10. apr. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[00:24]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að taka á ýmsu, en mig langar að ræða það sem kom fram í ræðu hv. þingmanns um flutningskerfi raforku á Norðurlandi. Hann kemur með athugasemdir sem snúa að þeim hugmyndum sem eru uppi um flutningskerfi raforku á Norðurlandi og gefur í skyn að þetta sé með þeim hætti að hér sé verið að undirbúa einhverjar línulagnir um Norðurland í flutningskerfinu sem eigi síðan að nýtast vegna sæstrengs. Ég hefði mikinn áhuga á að fá nánari útlistingar á þessu og skýringar á því hvert hv. þingmaður er að fara og hvort hv. þingmaður sé ekki meðvitaður um það ástand sem er á Norðurlandi í flutningskerfi raforku og viti þar með ekki hvert verið er að fara með því að efla raforkukerfið á Norðurlandi. Það er gríðarlega mikilvægt að fá þetta fram. Þetta er það sem ég kalla að vera að hræra í pottum með einhverri þvælu eins og í þessu tilviki, eins og gefið er í skyn hér og var gert í Kastljósi gærdagsins.

Við Norðlendingar búum á svæði þar sem hefur verið raforkuskortur í 10–15 ár, fátt hægt að gera, atvinnuuppbygging hefur verið takmörkuð vegna þessa. Síðan fer þetta út í einhverja umræðu hér um sæstreng og það að byggja upp flutningskerfi raforku á Norðurlandi snúist um að fæða sæstreng. Þetta er skammarleg umræða. Ég get sagt þér það að við Norðlendingar höfum enga þolinmæði fyrir svona hlutum og svona ummælum.