149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Einar Kárason (Sf):

Herra forseti. Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á því deilumáli sem hefur verið rætt í þinginu undanfarna sólarhringa held ég að við hljótum öll að deila þeirri sýn að auðlindir okkar Íslendinga eigi að vera í eigu Íslendinga, í eigu almennings og stofnana almennings og lúta þeirra yfirráðum. Ég deili fullkomlega áhyggjum hv. þingmanna í Flokki fólksins og Miðflokknum yfir því að þetta kunni að renna á einhvern annan stað, að við missum þetta forræði.

Ég held að ef við lítum yfir okkar helstu auðlindir, t.d. fiskimiðin, sé fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur þar. Við heyrum áhrifamikla menn í samfélaginu, álitsgjafa, að ekki sé talað um þá sem nýta sér þau hlunnindi, segja að það sé ekkert til sem heiti þjóðareign og að fiskurinn í sjónum eigi sig sjálfur. Um það sem hér hefur verið rætt, raforkuna, hef ég töluverðar áhyggjur af því þar sem yfir 80% af þeirri raforku sem er framleidd í landinu eru nýtt af mjög fáum öflugum erlendum auðhringjum. Við þurfum að passa okkur á því hvort þetta sé virkilega á okkar forræði. Við skulum hafa áhyggjur af því að eitt af þremur stærstu orkufyrirtækjum landsins, Hitaveita Suðurnesja, er komið í einkaeigu og ég held að við hljótum að spyrja okkur hvort opinber fyrirtæki, ríkið eða sveitarfélögin þurfi ekki að ná eignarhaldi þar á ný. Það má kosta þjóðnýtingu fyrir mér sem er ekki vinsælt orð af öllum.

Ég held að niðurstaðan sé sú að það sé algjört nauðsynjamál og það strax að við innleiðum í stjórnarskrána ákvæði um að auðlindir landsins séu ævarandi eign þjóðarinnar og almennings. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)