149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum, strandveiðar. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta sem ég mun ekki tíunda hér.

Frumvarpið var lagt fram af atvinnuveganefnd og miðar að því að festa í sessi þær breytingar sem gerðar voru tímabundið á fyrirkomulagi strandveiða skv. 6. gr. laga um stjórn fiskveiða á strandveiðitímabilinu 2018. Með frumvarpinu er lagt til að skipting aflaheimilda milli landsvæða verði felld niður og Fiskistofu veitt heimild til að stöðva strandveiðar fari heildarafli strandveiðibáta umfram það magn sem ráðstafað var til veiðanna. Er lagt til að hverju skipi verði heimilt að stunda strandveiðar í 12 daga innan hvers mánaðar á strandveiðitímabilinu, þ.e. maí, júní, júlí og ágúst. Jafnframt er lagt til að strandveiðiskipum verði heimilað að landa ufsa í samræmi við ákvörðun ráðherra með reglugerð sem svokölluðum VS-afla og telst það hvorki til hámarksafla hverrar veiðiferðar né leyfilegs heildarafla. Honum skal haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins. Hann skal veginn og skráður sérstaklega og skal jafnframt seldur á viðurkenndum uppboðsmarkaði og andvirði hans renni til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins.

Helstu breytingar frá því sem gert var fyrir strandveiðitímabil 2018 er að Fiskistofu, í stað ráðherra, er veitt heimild til að stöðva veiðar, fari heildarafli yfir heimilað magn, og að hámarksaflamark skal ákveðið með reglugerð.

Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að auka öryggi smábátasjómanna með því að tryggja ákveðinn dagafjölda til veiða í hverjum mánuði og koma þannig í veg fyrir að sjómenn rói út í vondum veðrum til að keppast við að veiða heimilaðan afla áður en lokað er fyrir veiðar. Nefndin telur að þetta breytta fyrirkomulag leiði til öryggis, jafnræðis og eflingar strandveiðikerfisins í heild, með auknum aflaheimildum og sveigjanleika hvað varðar val á veiðidögum með öryggissjónarmið að leiðarljósi.

Fyrir nefndinni hafa komið fram þau sjónarmið að val á föstum dögum geti haft í för með sér að betra hráefni fáist sem dreifist jafnar til vinnslu yfir mánuðinn, að aukið framboð verði á fersku hráefni yfir sumarið, að dreifðar byggðir styrkist og gætu jafnframt verið liður í að auka byggðafestu og nýliðun í greininni.

Fyrir nefndinni kom fram almenn ánægja með þær breytingar sem gerðar voru á fyrirkomulagi strandveiða á strandveiðitímabilinu 2018. Þó að enn séu áhyggjur af skiptingu á milli svæða. Þá reyndist heimild vegna ufsa vel í fyrra og var látin í ljós ánægja með að sú heimild verði aukin. Landssamband smábátaeigenda lýsti í umsögn sinni yfir stuðningi við frumvarpið í ljósi þeirrar reynslu sem fékkst af veiðikerfinu á síðastliðnu ári og taldi sambandið frumvarpið færa strandveiðar nær kröfu smábátaeigenda um aukið frelsi til handfæraveiða.

Landhelgisgæsla Íslands telur að reynsla síðasta sumars, þar sem leyfðir voru 12 dagar innan hvers mánaðar, hafi verið góð og að veiðidagar hafi verið valdir með tilliti til veðurfars og sjólags, í stað þess að keppast um úthlutaðan kvóta á hverju svæði, eins og gert var árin þar á undan. Sú staðreynd að smábátar eru minna á sjó í brælu stuðlar beint og óbeint að því að auka öryggi sjófarenda. Með því að binda þessi ákvæði í lög er öryggi því tryggt enn betur, telur Landhelgisgæsla Íslands.

Nefndinni var bent á að bæta við ákvæði um að hægt væri að segja sig frá strandveiðum og fá almennt veiðileyfi á strandveiðitímabilinu. Nefndin tekur undir að rétt sé að slík heimild sé í lögum. Þó sé rétt að slík heimild taki ekki gildi fyrr en mánuðinn eftir að óskað er eftir að strandveiðileyfi verði fellt úr gildi, þ.e. komi beiðni fram í júní verði umræddu fiskiskipi ekki heimilt að hefja fiskveiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum fyrr en í júlí, svo dæmi sé tekið. Fiskiskip sem óska þess að fá strandveiðileyfi sitt fellt úr gildi geta ekki fengið leyfi aftur til að stunda strandveiðar á sama strandveiðitímabili.

Fyrir nefndinni var vísað til þess að ákvæði b-liðar í 1. gr. frumvarpsins væri óþarft þar sem ufsi teldist ekki lengur til viðmiðunar í heildarafla. Í það minnsta þyrfti að skerpa á því að í þeim tilvikum sem heildarafli veiðiferðar væri innan við 650 þorskígildi, falli ufsi ekki undir VS-afla. Jafnframt komu fram sjónarmið fyrir nefndinni um að andvirði ufsa ætti að renna óskipt til útgerða. Nefndin telur að samkvæmt frumvarpinu sé skýrt að ufsi megi teljast til hámarksafla. Eigi að landa ufsa sem VS-afla skuli halda honum aðskildum frá öðrum afla, hann veginn sérstaklega og skráður. Sé það ekki gert megi telja hann til hámarksafla, þ.e. upp í 650 þorskígildi samkvæmt fyrrgreindu ákvæði.

Nefndin bendir á að þessi heimild hafi verið til staðar á strandveiðitímabilinu árið 2018 og verði það áfram.

Fyrir nefndinni var heimild Fiskistofu til að stöðva veiðar áður en strandveiðitímabili lýkur andmælt. Bent var á að með því að fella ákvæðið út yrðu strandveiðimönnum tryggðir 48 dagar á tímabilinu. Einnig komu fram sjónarmið um að niðurfelling á svæðaskiptingu á afla leiddi til þess að samkeppni yrði við landið allt í stað þess að vera takmörkuð við tiltekin svæði. Breytingin kæmi sér best fyrir sjómenn á tilteknu svæði og gæti leitt til þess að aflaaukning takmarkist við það svæði. Betra væri að lengja strandveiðitímabilið þannig að sjómenn gætu stýrt veiðum sjálfir miðað við fiskigengd á viðkomandi svæði. Þannig mundi afli dreifast betur á fiskmarkaði og skila betra verði.

Nefndin bendir á að fyrirhugað er að auka aflaheimildir frá því sem var á strandveiðum tímabilið 2018, þannig að nú verður hámarksaflamark hækkað upp í 11.000 tonn og hámarksaflamagn ufsa verður hækkað upp í 1.000 tonn. Að mati nefndarinnar hefur verið dregið verulega úr líkum á því að veiðar þurfi að stöðva þar sem heildarheimildir til strandveiða hafa verið auknar. Að mati nefndarinnar eru allar líkur á því að þær viðbótarheimildir sem um ræðir tryggi að á öllum svæðum verði unnt að veiða í 12 daga alla mánuði.

Nefndin tekur fram að ráðherra hefur heimild skv. 5. mgr., sbr. 3. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, til að auka heildarveiði svo unnt verði að nýta 12 daga til strandveiða í maí, júní, júlí og ágúst á hverju ári.

Nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu. Lagt er til að bætt verði nýrri málsgrein í 6. gr. a laganna sem heimilar fiskiskipum sem hafa fengið leyfi til að stunda strandveiðar og óska þess að strandveiðileyfi verði fellt úr gildi og hefja fiskveiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Þessi heimild taki gildi mánuðinn eftir að niðurfelling leyfis á sér stað, þ.e. verði strandveiðileyfið t.d. fellt niður í júní þá verði umræddu fiskiskipi heimilt að hefja fiskveiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum í júlí. Fiskiskip sem nýta þessa heimild geta þó ekki fengið leyfi aftur til að stunda strandveiðar á sama strandveiðitímabili. Lögð er til breyting á 1. málslið 4. mgr. 6. gr. laganna í samræmi við framangreint. Með þessu telur nefndin að komið sé að verulegu leyti til móts við mörg sjónarmið sem komið hafa fram í umsögnum um málið.

Síðan má skoða töflur um hvernig strandveiðar hafa þróast síðustu árin, bæði á milli svæða og tímabila og nýtingarhlutfall leyfilegra daga. Hægt er að skoða það í ljósi þess hver þróunin hefur verið í strandveiðum.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að betra væri að fyrirhuguð breyting yrði gerð til bráðabirgða og ekki fest varanlega í sessi fyrr en úttekt á fyrirkomulaginu hefði farið fram. Nefndin bendir á að reynslan frá strandveiðitímabilinu árið 2018 hafi sýnt að breytt fyrirkomulag hefur haft þau áhrif að meiri ró hefur verið yfir róðrum og veiðar dreifst meira frá því sem áður var. Markmiði breytinganna hafi að því leyti verið náð og því sé skynsamlegt að festa fyrirkomulagið í sessi. Nefndin telur enn fremur að takist vel til í sumar muni það leiða til áframhaldandi aukins öryggis, jafnræðis og eflingar strandveiðikerfisins í heild með auknum aflaheimildum og sveigjanleika hvað varðar val á veiðidögum með öryggissjónarmið að leiðarljósi.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að nauðsynlegt væri að allur strandveiðiafli færi á fiskmarkaði og að óheimilt yrði að flytja hann beint út, því að slíkt ynni gegn verðmætaaukningu og verðmætasköpun. Landið allt væri orðið einn markaður í gegnum fiskmarkaði og mikilvægt að allir hefðu aðgang að fiskinum á markaðnum. Nefndin telur að skoða þurfi hvort tryggja eigi að afli frá strandveiðum skuli ávallt bjóða fyrst innlendum kaupendum og að hráefnið verði ekki flutt óunnið í gámum til erlendra aðila.

Afli frá strandveiðum er afar mikilvægur fyrir fiskmarkaði þegar samdráttur er í afla frá annarri útgerð. Aflinn hefur oftar en ekki verið hryggjarstykkið í vinnslu margra fiskvinnslufyrirtækja yfir sumarið og verið gæðahráefni. Bent hefur verið á að ýmsar ytri aðstæður geti haft áhrif á forsendur fyrirkomulags strandveiða. Þetta eru aðstæður eins og samdráttur í heildaraflaheimildum, samdráttur á vinnumarkaði, veðurfar, fiskverð og fiskigengd. Nefndin leggur áherslu á að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og atvinnuveganefnd fylgist áfram með þróun strandveiða í ljósi markmiða um eflingu strandveiða, eflingu smærri byggða, aukið öryggi smábátasjómanna og nýliðun og í ljósi sjónarmiða um jafnræði byggða og landshluta.

Nefndin bendir á að samþykki liggur fyrir um að í lok strandveiðitímabilsins 2019 muni Byggðastofnun gera ítarlega úttekt á reynslu síðustu tveggja strandveiðitímabila. Að mati nefndarinnar þarf í úttektinni að leggja áherslu á byggðafestu, öryggismál, útkomu mismunandi landshluta, sveigjanleika í kerfinu og fiskigengdar innan veiðisvæða á tímabilinu. Niðurstöðuna mun atvinnuveganefnd nota til að vinna að frekari endurbótum á strandveiðikerfinu í samráði við strandveiðimenn á svæðunum fjórum og hagsmunasamtökum þeirra fyrir strandveiðitímabilið 2020 og óskað hefur verið eftir því að úttektin liggi fyrir eigi síðar en 1. febrúar 2020.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„Við 1. gr.

a. Á eftir b-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Við 1. málsl. 4. mgr. bætist: nema strandveiðileyfi hafi verið fellt úr gildi skv. 5. mgr.

b. Á eftir c-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: Á eftir 4. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. er fiskiskipi sem hefur fengið strandveiðileyfi heimilt að óska eftir að leyfið verði fellt úr gildi og stunda fiskveiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum. Þó tekur slík niðurfelling strandveiðileyfis ekki gildi fyrr en mánuðinn eftir að ósk um niðurfellingu á sér stað. Hafi strandveiðileyfi fiskiskips verið fellt úr gildi getur það fiskiskip ekki fengið strandveiðileyfi að nýju á umræddu strandveiðitímabili.“

Undir þetta nefndarálit skrifa eftirfarandi, sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður og framsögumaður málsins, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, með fyrirvara, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson, Sara Elísa Þórðardóttir, með fyrirvara, og Sigurður Páll Jónsson.

Þorgerður K. Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi í atvinnuveganefnd, er samþykk áliti þessu, með fyrirvara.

Ég tel að búið sé að vinna þetta mál vel og lengi. Þetta er mál sem fjöldinn allur hefur hagsmuni af beint og óbeint og þegar endurskoðun á svona kerfi innan fiskveiðikerfisins fer í gang koma eðlilega fram mörg og ólík sjónarmið, eins og raunin var hér. En náðst hefur utan um málið með þessum hætti, úr ólíkum pólitískum áttum með greininni sjálfri. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við göngum nú skrefið til fulls og lögfestum frumvarpið sem hér liggur fyrir um að festa í sessi 12 daga kerfið, þ.e. að mönnum sé heimilt að róa 12 daga innan hvers mánaðar og á sömu dögum og verið hefur, að menn velji þá þessa daga innan vikunnar, mánudag, þriðjudag, miðvikudag, fimmtudag. Allt annað sem komið hefur til umræðu munum við skoða að lokinni úttekt á strandveiðum eftir þessi tvö sumur sem búið er að vinna eftir breyttu kerfi, dagakerfinu. Við skoðum það með það að leiðarljósi að bæta og styrkja kerfið, sem ég tel vera mjög mikilvægt innan stóra fiskveiðikerfisins varðandi rétt til atvinnu og nýliðunar og til að styrkja þessar litlu byggðir vítt og breitt um landið. Þetta er líka hluti af menningu okkar og sögu og er mikilvægt að hægt sé að hafa af því eðlilegar tekjur, að strandveiðar eflist þannig að þær standi undir sér og geti verið stuðningur með útgerð annars hluta ársins.

Þess vegna tel ég mikilvægt að menn geti, alveg eins og þeir geta í dag, byrjað seinna, verið fyrst á grásleppu og byrjað seinna á strandveiðum. Ef það hentar einhverjum að byrja og hætta fyrr sé möguleiki í hinn endann að hætta og fara á aðrar veiðar. Margir af þessum litlu bátum hafa möguleika á því, eru með einhvern kvóta og geta þá notað seinni hlutann í júlí eða ágúst til að stunda þær veiðar. Þeir eru þá ekki bundnir af því að þurfa eingöngu að vera á strandveiðum í fjóra mánuði. Allt þetta tel ég vera sveigjanleika sem geri ekkert annað en að styrkja og efla það kerfi sem sett var á 2009 og var líka hugsað til að mæta dómi Mannréttindadómstóls Sameinuðu þjóðanna um rétt manna til atvinnu. Þarna var hægt að komast inn í greinina án þess að þurfa að kaupa sér aflaheimildir eins og veruleikinn er gagnvart kerfinu heilt yfir.

Í fyrra tókst þetta bara ljómandi vel. Mikill meiri hluti hefur verið mjög ánægður með þetta vítt og breitt um landið þó að vissulega séu ekki allir sáttir alltaf, eins og eðlilegt er. En það þurfti ekki að stöðva veiðar í fyrra. Þá höfðum við heimild til að veiða hámarksafla með reglugerð. Hámarksafli í kerfinu voru 10.200 tonn. Það fóru út eitthvað um 9.700 tonn með ufsa, um 9.300 tonn voru þorskur. Í fyrra mátti veiða utan hámarksafla á dag 700 tonn af ufsa, sem var skipt þannig á milli að útgerðaraðilinn fékk 80% í sinn hlut og 20% fór í VS-afla. Það verður áfram með þeim hætti, nema við aukum heimildirnar og verður gefin út reglugerð sem heimilar að veiða megi ufsa utan hámarksafla á dag upp á 1.000 tonn. Það verður hækkað. Reglugerðin í fyrra, sem hljóðaði upp á 10.200 tonn á hámarksafla í heild í strandveiðipottinum, verður núna 11.000 tonn.

Ljóst er að menn eiga ekki að þurfa að óttast að dagarnir dugi ekki fyrir öll landsvæði alla mánuði, það er meira en öruggt að þeir munu duga. Svo vitum við að ráðherra hefur heimild með reglugerð að bæta í eins og gert hefur verið. Árið 2017 bætti hæstv. þáverandi ráðherra, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, í 500 tonnum í ágúst 2017 með reglugerð. Það er þá yfirleitt afli sem fyrirséð er að gangi ekki út og myndi annars brenna inni. Strandveiðar eru eina kerfið innan þessa hluta, 5,3% félagslega hluta kerfisins, sem getur þá nýtt aflaheimildir sem ekki nýtast, eins og t.d. í línuívilnun. Nú skilst mér að það séu þó nokkuð miklar veiðiheimildir í línuívilnun sem blasir við að nýtist ekki, svo það er þá varasjóður í þessum efnum ef á þyrfti að halda.

En ég vona að sem flestir geri út á strandveiðar. Þeim hefur verið að fækka mikið undanfarin ár. Bara síðustu ár hefur bátum á strandveiðum fækkað jafnt og þétt um 40, 50 báta ár hvert. Það er ekki góð þróun. Með því að setja þessa daga á, að menn geti þá haft meiri möguleika á að ná fullum skammti og róa í góðu veðri til að ná í gott hráefni, styrkjum við kerfið. Það er mjög gott fyrir bæði fiskvinnslur og fiskmarkaði að þetta dreifist svona yfir mánuðinn og líka gagnvart verðmyndun á aflanum til sjómanna.

En ég treysti því að góð samstaða verði þvert á pólitík í þessu máli og að við getum afgreitt þetta mál í þinginu í dag og gert það að lögum.