149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þingmaður hafa gefið upp alla von fyrir minni sjávarbyggðir og strandveiðar. Ég er bjartsýnni en það. Ég tel mig hafa vissu fyrir því og hef verið í góðu sambandi við menn í Landssambandi smábátaeigenda og heyrt í fjöldanum öllum sem hafa hagsmuni af þessari grein vítt og breitt um landið. Það hefur skipt miklu máli að hafa öflugar strandveiðar. Auðvitað eru margir bátar sem eru kannski eingöngu á strandveiðum og hafa ekki miklar og háar tekjur. En það er samt verið að skapa tekjur á mörgum minni stöðum sem annars væri ekki mögulegt að skapa tekjur á og menn myndu þá frekar flytja búferlum. Við megum ekki tala niður eitthvað sem er kannski ekki stórt og mikið. Við þekkjum það á fjölda staða, vítt og breitt um landið, að fyrir rúmum 30 árum var togari í hverri höfn. Litlir staðir hafa ekki möguleika á að stofna til stórra og mikilla útgerða. Þarna styð ég við einstaklingsframtakið, að menn hafi þennan möguleika að gera út, án þess að fara út í miklar og stórar fjárfestingar.

Hv. þingmaður talaði um að ekki hafi verið nýliðun. Ekki hefur verið gerð nein úttekt eða rannsókn á því að þar hafi ekki verið nýliðun. Ég þekki til fjölda ungra manna á Vestfjörðum sem hafa farið á strandveiðar og eru á strandveiðum, svo ég held að það sé ekki rétt. En vissulega mun Byggðastofnun gera góða úttekt á því svo við sjáum hver veruleikinn er.

Ég tel að strandveiðar einar og sér séu góð viðbót við það sem fyrir er. Það er líka fullt af eldri mönnum, sem annars myndu kannski vera jafnvel byrði á heilbrigðiskerfinu, sem eru bara frískir fram yfir áttrætt (Forseti hringir.) vegna þessara strandveiða. Ég þekki nokkra slíka karla t.d. í Bolungarvík.