149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:08]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Já, ég skil hana ósköp vel. Ég skil þetta sjónarmið mjög vel, að vilja efla byggðirnar. Það getur svo sem vel verið að þetta glæði líf í höfnum úti um allt land, en ég velti fyrir mér hvort þetta sé hagkvæmt, hvort það væri ekki miklu nær að bjóða upp þennan afla og dreifa síðan peningunum á hafnir og í þessi byggðarlög, þar sem fólkið í byggðarlögunum fær bara að velja sjálft hvernig það ætlar að ráðstafa þeim. Það getur vel verið að það vilji ráðstafa þeim þannig að það vilji reisa fiskvinnslu eða útgerð, og þá eru það þeir menn sem hafa vinnu af sjómennsku allt árið um kring en þurfa stundum að hætta að veiða snemma á árinu vegna þess að þeir hafa ekki kvóta. Þá fengju þeir kannski þennan kvóta og gætu unnið og veitt hann. Þetta er bara spurning.

Ég skil mjög vel afstöðu hv. þingmanns, sérstaklega komandi frá Vestfjörðum þar sem hefur nú aldeilis dregist saman, aflaheimildir og annað, að þetta sé gott. En ég er hugsi yfir þessari hagkvæmni. Hvort við eigum ekki að reka útgerð þannig í dag, því að gríðarleg þróun er í sjávarútvegi og tækniþróunin er alveg hreint með ólíkindum, að við verðum einhvern veginn að reyna að fá sem mestan arð úr sjávarútvegsauðlindinni og dreifa honum síðan á eigandann, sem er þjóðin.

Sveitarfélög á landsbyggðinni líða fyrir það að þau hafa ekki nógu fjölbreytta atvinnu. Það er algjört lykilatriði, það er alveg á hreinu. Við byggðum allt upp á landbúnaði og sjávarútvegi og þetta er hreinlega að dragast saman, sérstaklega sjávarútvegur. Við verðum að finna leiðir til þess að skapa meiri atvinnu. Ég tel að peningar sem kæmu úr þessari auðlind inn í þau sveitarfélög sem eiga mörg um sárt að binda, það er alveg á hreinu, að þau gætu byggt upp fjölbreyttari atvinnu ef þau hefðu tök á því og gætu m.a. verið í fiski, ég segi það ekki, en það er mín skoðun. En ég vil allt til þess vinna að hér ríki (Forseti hringir.) góð byggð og góð byggð sé í landinu, alls staðar.