149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:12]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Forseti. Við ræðum hér á ný frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, eða þann hluta laganna er snýr að strandveiðum. Hér er verið að festa í sessi breytingar sem gerðar voru á strandveiðikerfinu í fyrra. Eins og fram hefur komið felst stærsta breytingin nú eins og þá í því að hver bátur geti stundað strandveiðar í 12 daga í hverjum mánuði svo lengi sem ráðstöfuðum heildarafla sé ekki náð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setti um strandveiðar árið 2018.

Þegar þessar breytingar voru gerðar í fyrra stóð mikill styr um þær, svo vægt sé til orða tekið, en sem betur fer bendir allt til þess að reynsla síðasta sumars hafi verið betri en óttast var og styður t.d. Landssamband smábátaeigenda málið heils hugar. Því miður gekk ekki eftir að farið væri í úttekt á reynslu síðasta sumars, eins og óskað hafði verið eftir, nokkuð sem ég tel allstóran ágalla á málinu og er þess vegna á nefndarálitinu með fyrirvara. Ég hefði raunar helst viljað að breytingarnar nú yrðu aftur tímabundnar, eins og lagt var til m.a. í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, og yrðu ekki festar í sessi fyrr en niðurstaða úttektarinnar lægi fyrir. En nú er búið að tryggja það að Byggðastofnun vinni úttekt á reynslu síðasta sumars og þessa sumars. Verður málið tekið upp að nýju í atvinnuveganefnd á næsta vetri og reynslan metin út frá þeim niðurstöðum. Ég tel mig hafa fullvissu fyrir því að svo verði og mun fylgja því sjálf eftir í nefndinni næsta haust eða næsta vetur.

Ég hef einnig gert athugasemdir við málsmeðferðina sem slíka og stend við þær athugasemdir, þ.e. hversu seint málið kom inn í nefndina og að æskilegt hefði verið að skoða fleiri hliðar málsins, einkum hvað varðar jafnræði milli svæða, en það kemur m.a. fram í umsögn Fonts, félags smábátaeigenda á Norðausturlandi, að þau telji að sú breyting, að hafa kerfið í einum potti en samt svæðaskipt, komi þeirra svæði, svæði C, mjög illa. Þannig óttast menn að svæði A, þar sem fiskigengd er góð á þessum tíma, einkum fyrri hluta tímabils, geti mögulega klárað pottinn áður en hin svæðin ná að klára sína daga.

Þá er einnig bent á í umsögn Fonts að skoða þyrfti að vera með meiri sveigjanleika í kerfinu þannig að ekki þurfi að veiða verðlítinn fisk í maí á svæðum þar sem fiskast mun betur seinni hluta sumars. Það er nokkuð sem ég tel að sé mikilvægt að skoða þegar málið verður tekið upp aftur næsta vetur, en þá mun nefndinni vonandi gefast rýmri tími til að leggjast yfir málið en var nú, en eðlilega þarf að klára málið áður en strandveiðitímabilið hefst.

Til að bregðast við þessu hefur þó verið tryggður meiri kvóti í strandveiðarnar en í fyrra og sömuleiðis hefur ráðuneytið gefið væntingar um að hægt verði að bregðast við og bæta inn í kerfið ef útlit er fyrir að ekki nái allir bátar sínum 48 dögum.

Eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir fór ágætlega yfir í ræðu sinni þá bárust 13 umsagnir um málið, þar á meðal frá Landhelgisgæslu Íslands. Þar kom fram sú mikilvæga staðreynd að upplifun Landhelgisgæslunnar hefði verið að þessi breyting hefði orðið til þess, með leyfi forseta:

„[Í] stað þess að keppast við aðra leyfishafa um úthlutaðan kvóta á hverju svæði, virtist [breytingin] verða til þess að veiðidagar voru valdir með tilliti til þess að veðurfar og sjólag væru með ákjósanlegra móti heldur en verið hafði árin á undan.

Sú staðreynd að strandveiðibátar eru minna á sjó þegar bræla er á hafinu stuðlar beint eða óbeint að því að öryggi sjófarendanna verður meira. Að binda þessi ákvæði í lög tryggir […] öryggi enn betur.“

Það var einmitt tilgangurinn með breytingunni í fyrra, þ.e. að reyna að stuðla að bættu öryggi og minnka það sem kallaðar eru ólympískar veiðar. Umsögn Landhelgisgæslunnar bendir til þess að það hafi tekist að einhverju leyti og er þá til mikils unnið.

Forseti. Ég þarf ekki að fara í löngu máli yfir þann málflutning sem Samfylkingin hefur haft uppi um stjórn fiskveiða, en við höfum talað fyrir miklu róttækari og sanngjarnari breytingum í lagaumhverfi þeirra og því munum við halda áfram. Má í því samhengi nefna frumvarp hæstv. þingmanns Oddnýjar Harðardóttur á síðasta þingi um útboð á viðbótarkvóta sem komið hefur til úthlutunar síðustu fiskveiðiár án endurgjalds. Strandveiðarnar hafa verið ákveðin leið til að koma til móts við sjónarmið þeirra sem telja þörf á breytingum í fiskveiðistjórnarkerfinu í þá átt að tryggja Íslendingum öllum ríkari hlutdeild í veiðunum. Því miður er þetta ekki nándar nærri nóg, en breytingarnar munu koma hægt og sígandi. Vonandi munum við þó fljótt taka stór skref í þá átt með nýrri stjórnarskrá eins og þjóðin kallar eftir, sem mun taka af allan vafa um eignarhald auðlindanna okkar.