149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:40]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Byggðakvótinn svokallaði er auðvitað hluti af 5,3% kerfinu. Reynt var af hálfu hæstv. ráðherra að leggja af stað með þá vinnu í vetur og undirritaður var fenginn í það ásamt öðrum þingmönnum en tími hefur ekki unnist til að ná mönnum saman. Við reyndum við þetta, ef ég man rétt í tví- eða þrígang á árunum 2013–2017, að nálgast heildarúttekt á þessu kerfi. En það er alveg rétt að margt hefur bent til þess að í einhverjum tilfellum er augljóst að það fyrirkomulag á úthlutun byggðakvóta hefur hjálpað. En það er líka gagnrýnt. Því er einmitt tilefni til að skoða þessi heildaráhrif og hvernig við getum tryggt sem best að þetta mikla verðmæti sem liggur í 5,3% af aflaverðmæti okkar komi byggðum landsins sem best.

Þess vegna talaði ég um það áðan að þetta þyrfti að vera í stóra samhenginu hjá Byggðastofnun, það þyrfti einmitt að skoða þessa þætti. Það er líka mikilvægt vegna fyrirsjáanleika þessara litlu og meðalstóru útgerða. Í byggðakvótakerfinu, til að mynda, virðulegur forseti, er ekki á vísan að róa og á milli ára og menn hafa ekki getað haft þetta svona sem tryggan grunn í ákveðinn tíma, t.d. til að endurnýja bátinn sinn eða gera við hann og fara í ákveðinn kostnað, af því að þeir hafa ekki getað treyst á þessar tekjur frá ári til árs.

Ég tek því undir með hv. þingmanni að nauðsynlegt er að tvinna þetta saman.