149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek alveg heils hugar undir það sjónarmið að við eigum einmitt að reyna að hugsa þetta kerfi þannig að ávinningur af því verði sem mestur fyrir þá sem við beinum þessum aðgerðum til. Að því leyti er það vissulega atriði sem þarf að skoða, hvort lögbinda eigi að allur afli fari á markað. Ég er ekki alveg viss um það í öllum tilfellum. En þó má segja að þegar kerfið fór fyrst af stað hafði þetta þau áhrif, vegna þess hvernig kerfið var byggt upp og hafa þó verið gerðar á því breytingar þessa dagana núna, að verð á mörkuðum fór mjög niður. Þeir sem stunduðu ekki strandveiðar héldu sig jafnvel í landi fyrstu daga mánaða vegna þess að þá var framboðið af strandveiðibátunum það mikið að það felldi verðið á mörkuðum. Að því leyti var það auðvitað óhagkvæmt fyrir alla.

Sú dreifing sem verður með dagaskiptingunni er jákvæð að því leyti að hún tryggir jafnara flæði þess afla yfir tímabilið og það kemur náttúrlega vinnslunum og öllum iðnaðinum til góða.

En jú, við erum með það að markmiði að hægt sé að efla byggð og þessa tegund sjósóknar. Hluti af því að efla byggð er klárlega að reyna að stuðla að einhvers konar vinnslu eða meiri verðmætasköpun á viðkomandi stað. En við skulum þó ekki vera með neina glýju yfir því að sú nútímatækni í vinnslu í sjávarútvegi og bolfiski, sem hefur verið innleidd á síðustu árum, geri það að verkum að litlar vinnslur heyri sögunni til, nema kannski í mjög sérhæfðri vinnslu.