149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[16:45]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem snýr að strandveiðum. Nefndin hefur lokið störfum og er komin fram með nefndarálit.

Í fyrravor var umdeilt frumvarp samþykkt á Alþingi um strandveiðar. Helstu breytingarnar urðu að veiðidagarnir voru bundnir við 12 daga hvers báts í hverjum mánuði, þessa fjóra mánuði strandveiðitímabilsins, og gilti meðan hámarksafla væri náð. Einnig var ákvæði sem heimilaði strandveiðibátum að landa ufsa sem VS-afla og sá afli myndi ekki teljast til viðmiðunar inn í hámarksafla. Síðan var það undirstrikað að það yrði einn pottur yfir landið. Með þessu frumvarpi endurtökum við eiginlega leikinn frá því í fyrra með nokkrum breytingum, en reyndin var sú að það var nokkuð mikil andstaða við breytingarnar í fyrravor og við fengum harðorðar yfirlýsingar. Þegar upp var staðið var almenn ánægja með kerfið. Þegar ég tala um almenna ánægju þá er það hjá meiri hlutanum, auðvitað eru staðir og einstaklingar sem ekki eru sáttir og vilja sjá ýmsar breytingar á kerfinu. Þar voru margar hugmyndir ræddar, jafnvel að færa sig til í fjóra mánuði, að vera ekki alltaf innan þessara fjögurra föstu mánaða heldur að menn gætu fært sig eftir fiskigengd eða hvenær fiskurinn gæfi sig á hverju svæði o.s.frv. En að meðaltali held ég að þetta hafi komið nokkuð vel út, sem sýndi sig í því að það var hægt að treysta á þessa 12 daga í mánuði á öllum svæðum. Það er það sem skiptir máli.

Þegar lagt var upp með þetta frumvarp í fyrra töluðum við um öryggissjónarmiðin og ég held að niðurstaðan hafi verið strandveiðisjómönnum sérstaklega í hag, að það væri ekki verið að hlaupa út í hvaða veðri sem er, að öryggi væri tryggt á þeim svæðum þar sem var farið til veiða. Sérstaklega er hægt að nefna A-svæðið þar sem var mikil ásókn í að komast að fyrstu dagana og jafnvel fóru dagarnir stundum niður í fjóra áður en potturinn kláraðist. Það gefur augaleið að það skiptir miklu máli að vera fyrstur niður á bryggju og út til að ná í eitthvert verðmæti þessa daga.

Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að auka öryggi smábátasjómanna með því að tryggja ákveðinn dagafjölda til veiða í hverjum mánuði og koma þannig í veg fyrir að sjómenn rói út í vondum veðrum til að keppast um eða veiða heimilaðan afla áður en lokað er fyrir veiðar. Landhelgisgæslan sem fylgdist með þessu tók undir þetta sjónarmið og þeirra reynsla af sumrinu var að þetta hefði tekist. Númer eitt, tvö og þrjú skiptir þetta miklu máli.

Aðstæður eru auðvitað misjafnar í kringum landið. Hver höfn hefur sína sérstöðu og þeir bátar sem róa þaðan. Því er ekki hægt að tryggja fullkominn jöfnuð allra aðila eða allra hafna. Jafnvel skiptir máli hvar í firðinum höfnin stendur, hversu marga klukkutíma það tekur að komast á miðin þar sem fiskurinn gefur sig. Við náum aldrei fullkomnu jafnræði þótt við reynum að nálgast það að einhverju marki. En alla vega er það tryggt að við höfum núna úr meiri afla að spila, stærri pott, eða 11.000 tonn. Það náðist að veiða 9.700. Það hafa svo sem verið misjafnar áherslur í því, talað um hvort aðilum fækki enn frekar í þessum strandveiðum, eða hvort það verði fjölgun. Sumir telja að það fjölgi vegna þess að menn nái ekki að leigja sér kvóta. En það er ekki svo sem neitt öruggt í þeim efnum, ekki frekar en að við getum spáð til um veðrið eða fiskigengdina. En það sem skiptir aðalmáli er að nú erum við að festa þetta kerfi í sessi sem hefur verið við lýði í 10 ár og hefur sannað sig að því leyti að strandveiðar skipta allar hafnir og alla staði miklu máli. Mér fannst svolítið sérstakt að heyra það hjá tveimur hv. þingmönnum sem töluðu hér á undan að það væri mjög misjafnt hversu miklu máli þær skiptu. Alla vega heyri ég ekki í vinnu minni í nefndinni að þetta skipti einhvers staðar litlu máli því allir höfðu gríðarlega mikla skoðun á þessu. Það undirstrikar að þetta skiptir fólk máli. Þetta skiptir plássin máli.

Hv. þm. Jón Gunnarsson talaði um að fyrir vestan væri þetta kannski ekki eins mikilvægt þar sem þar væri að koma inn stór atvinnugrein, þ.e. laxeldið. En það er eitthvað sem við höfum ekkert í hendi. Við erum að vinna með það. Það verður kannski á næsta áratug sem sú atvinnugrein kemur til með að sanna sig. Strandveiðarnar skipta líka miklu máli í ferðamannaiðnaðinum eða bara fyrir plássin, menningargildið er mikið. Ég hef séð á þeim stöðum þar sem strandveiðar eru stundaðar að einhverju ráði, þó að það séu ekki nema tveir, þrír bátar, fer eftir stærð hafnanna og hvar þeir eru, að það skiptir gríðarlega miklu máli, bæði fyrir fólkið á staðnum, fólkið í plássinu og þá sem heimsækja staðinn, að sjá þetta líf á höfninni. Við erum líka að undirstrika þann menningararf sem hefur verið við lýði hér, að fólk fari á sjóinn þótt það sé á litlum bátum. Það eru ekki bara stórir togarar sem koma í land vikulega eða mánaðarlega til að skila aflanum, heldur er það þetta líf á höfninni sem skiptir máli. Því megum við ekki gleyma í þessu sambandi. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við séum að festa þetta kerfi í sessi.

Sumir hafa áhyggjur af því að kerfið verði meitlað í stein og þessu verði aldrei breytt aftur og þetta leiði til ójöfnuðar, potturinn gangi út á A-svæðinu og verði allur veiddur þar. Ég hef ekki svo stórkostlegar áhyggjur af því vegna þess að við höfum ætlað okkur að taka út þessi tvö ár. Ég get fullvissað hv. þm. Jón Gunnarsson um að við komum til með að ganga á eftir því. Við í nefndinni gengum eftir því að þessi úttekt yrði gerð eftir sumarið og það bara gekk ekki eftir. Nú hefur nefndin samþykki fyrir því að í lok strandveiðitímabilsins 2019 muni Byggðastofnun gera ítarlega úttekt á reynslu síðustu tveggja strandveiðitímabila. Að mati nefndarinnar þarf í úttektinni að leggja áherslu á byggðafestu, öryggismál, útkomu mismunandi landshluta, sveigjanleika í kerfinu og fiskigengdar innan veiðisvæða á tímabilinu. Niðurstöðurnar mun atvinnunefnd nota til að vinna að frekari endurbótum á strandveiðikerfinu.

Ég veit ekki hvernig þetta getur verið skýrara, hvort við þurfum einhverja undirritun aðila sem lofa að gera þetta, en það hlýtur að vera nógu örugglega áréttað af nefndinni að Byggðastofnun fari yfir þessa þætti og taki tillit til mismunandi breyta sem skipta máli um land allt. Ég get ekki séð nokkra einustu ástæðu til þess að við séum að fara aftur inn í eitthvert herbergi til að ræða þetta frekar. Það er einlægur vilji nefndarinnar að úttektin fari fram og við fylgjumst með því. Strandveiðikerfið getur ekki vaxið nema því verði fylgt eftir og fylgst með því þannig að hægt sé að bregðast við þeim breytingum sem koma upp, hvort sem það er á mismunandi stöðum eða bara í heild á landinu öllu. Það skiptir gríðarlega miklu máli að þessu verði fylgt eftir að öllu leyti. Ég sé enga ástæðu til þess að nefndin fjalli frekar um þetta. Við erum að fara inn í páskafríið, en við miðum við 1. maí. Ef við samþykkjum þetta ekki fyrr en eftir páska þá höfum við tvo daga. Þeir sem ætla að fara á strandveiðar hljóta að þurfa að undirbúa sig eða alla vega hafa þá vissu sem við getum veitt fyrir því hvernig þeir eigi að haga sínum veiðum.

Þær breytingar sem hafa verið gerðar í frumvarpinu varða m.a. VS-aflann en það er skýrt í frumvarpinu að ufsa megi telja til hámarksafla dagsins, en eigi að landa ufsa sem VS-afla skuli honum haldið aðskildum frá öðrum afla, hann veginn sérstaklega og skráður. Þetta er breyting til batnaðar. Það eru svæði sem hafa sérstaklega kallað eftir breytingum á þessu og telja sig bera skarðan hlut frá borði. Þeir hafa kannski getað nýtt sér ufsann til tekna og ábata í kerfinu. Mér finnst þetta hafa verið góð breyting auk þess sem við erum að auka pottinn um 800 tonn og að aflahámarkið á ufsa verði 1.000 tonn, frá 700 tonnum í fyrra.

Við erum að reyna að tryggja sérstaklega 12 daga og nefndin tekur fram að ráðherra hefur heimild til að auka heildarverðmæti svo unnt sé að nýta þessa 12 daga. Ég skil ekki alveg þá hræðslu sem hefur komið fram hjá tveimur hv. þingmönnum sem komu hér á undan, að við séum þarna að seilast í eitthvert hámark eða setja inn einhverjar breytur sem komi illa út fyrir heildina. Ég held að strandveiðarnar ógni ekki neinu kerfi í sjávarútveginum, þetta er bara til viðmiðunar og mér finnst við leggja sérstaklega áherslu á þær veiku byggðir sem hafa nýtt sér veiðarnar. Ég vil nefna t.d. Norðurfjörð á Ströndum sem við getum örugglega kallað veika byggð. Þar hafa komið bátar, þó ekki margir, en þessu hefur verið sinnt þar og þó að þetta fari allt á markað eða í gáma og fari eitthvað annað, sé ekki unnið alveg nákvæmlega á þeim stað, þá eykur þetta lífið á höfninni. Það eru alltaf einhverjir í kring, strandveiðimennirnir þurfa að komast í fæði og gistingu og alltaf rúllar boltinn. Ég held að það megi örugglega telja þetta til tekna alls staðar.

Ég skil ekki alveg þessa hræðslu hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, að það séu einhverjar byggðir að verða of feitar fyrir vestan sem eigi þetta ekki skilið. Ég veit ekki alveg hvert hann er að fara í því, nema hann ætli að tryggja okkur það að fiskeldi í sjó verði umtalsvert. Það er bara gott. Ég held að það gerist þá sjálfkrafa, menn hverfa ekki frá tryggri atvinnu til þess að fara í strandveiðarnar, ekki nema þá af fullum áhuga, ef þeir telja sig ekki geta tryggt betri afkomu þar.

Ég vil bara undirstrika það að við munum leggja áherslu á að Byggðastofnun geri þessa úttekt og ég treysti þeim fullkomlega til þess og við getum fjallað svo áfram um málið eftir að sú úttekt kemur.

Það komu fram þau sjónarmið fyrir nefndinni að betra væri að fyrirhuguð breyting yrði til bráðabirgða og ekki fest varanlega í sessi fyrr en úttektin kæmi. En ég held að það sé betra að horfa á tvö ár, taka svo stefnuna út frá því.

Mér finnst mjög mikilvægt að þetta kerfi sé komið til að vera. Síðustu 10 ár hefur potturinn farið vaxandi, fyrst byrjuðum við á 3.400 tonnum og upp í 9.700 tonn í fyrra og hittiðfyrra og var veiðin á árinu 2018 hin sama og á árinu áður þrátt fyrir að heimildin hefði verið hækkuð. Því má segja að strandveiðikerfið hafi farið vaxandi og eflst á öllum svæðum landsins.

Ég held að ég hafi svo sem ekki mörg fleiri orð um þetta. Við höfum verið mjög samstillt í vinnunni í nefndinni. Auðvitað hafa verið aðeins mismunandi áherslur. En við skrifuðum öll upp á þetta nefndarálit, þó með einhverjum fyrirvara, og ég held að við ættum að nýta okkur það og koma þessu farsællega frá okkur og koma þeim skilaboðum út til byggða landsins svo fólk geti alla vega undirbúið sig örugglega fyrir sumarið.