149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[17:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, strandveiðar, mál sem við komum með í nefndinni í fyrra til að koma til móts við mjög skýr sjónarmið af hálfu sveitarfélaga, en ekki síður strandveiðimanna og flestra smábátasjómanna, um að skoða þyrfti m.a. öryggissjónarmið og auka sveigjanleika innan strandveiðikerfisins. Vel að merkja er kominn nokkur tími síðan strandveiðarnar voru settar á en strax í upphafi voru þær eru umdeildar. Ég held að á því tímabili sem þær hafa verið við lýði hafi það sýnt sig að fáir vilja leggja veiðarnar niður. Hins vegar ber okkur sem löggjafarvaldi skylda til að skoða þá þætti sem betur mega fara. Þá vona ég að við gerum það ekki út frá kjördæmisgleraugum heldur út frá heildarsjónarmiði, m.a. okkar sem eigum auðlindina, þannig að við gerum þá kröfu að auðlindin sé vel nýtt, verðmætasköpun verði sem mest og líka að þeir sem stunda greinina, hafa atvinnu af henni, a.m.k. að hluta til, geti búið við ákveðinn fyrirsjáanleika, öryggissjónarmið séu viðhöfð og að við séum reiðubúin til að hlusta á það sem betur má fara. Það getur verið mismunandi eftir kjördæmum. Það liggur alveg ljóst fyrir. Horfandi á það héðan frá suðvesturhorninu er ljóst að sjónarmið þingmanna eru mismunandi eftir því hvaðan þeir koma af landinu.

Í fyrra var ég á málinu. Ég er á álitinu núna sem áheyrnarfulltrúi en með fyrirvörum og mun gera grein fyrir þeim hér. Í fyrra var lagt upp með að þetta væri tilraun, tímabundið verkefni, og að farið yrði í úttekt. Mér finnst áhugavert að löggjafinn, og ekki síður framkvæmdarvaldið, hafi svigrúm eða tæki til að þróa sig áfram, til að þróa bæði stjórnsýsluna og kerfið okkar, hvort sem það er á sviði heilbrigðismála, sjávarútvegs eða landbúnaðar, að við reynum að þróa okkur í formi ákveðinna tilrauna sem er settur rammi og svo gerum við úttekt á því hvað megi betur fara.

Mér fannst þetta líka áhugavert af því að ég tek heils hugar undir þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar, ekki síst öryggissjónarmiðin sem eru mjög skýr og afdráttarlaus. Það er erfitt að hunsa þau. Þess vegna finnst mér miður, og fyrsti fyrirvari minn lýtur að því, að úttektin hafi ekki verið gerð. Á meðan úttektin hefur ekki verið gerð finnst mér erfitt að horfa upp á að við lögfestum þetta varanlega, að heimildin sé ekki tímabundin.

Mér finnst það ekki góður bragur á þeirri aðferðafræði, ef ég á að segja alveg eins og er. Það mun leiða til þess að næst þegar koma upp áhugaverðar hugmyndir um að breyta hluta af fiskveiðistjórnarkerfinu eða landbúnaðarkerfinu, eða hvaða kerfi sem er, hefur maður sjálfkrafa varann á sér. Er verið að fá mann inn í verkefni sem verður lögfest eftir ár, óháð því hvaða sjónarmið maður hefur til verkefnisins, óháð því hvort úttekt hefur verið gerð á verkefninu? Mér finnst það ekki nægilega góð vinnubrögð. Ég hefði ekkert séð að því að hafa innihaldið eins og það er en án gildistökunnar, þ.e. að þetta væri ekki fest í sessi.

Ég vil leyfa mér að taka undir m.a. það sem Samband íslenskra sveitarfélaga segir í áliti sem það vann í samvinnu við Samtök sjávarútvegssveitarfélaga. Þau telja ótímabært að svo stöddu, með leyfi forseta, „að lögfesta fyrirkomulag strandveiða þegar úttekt hefur ekki enn farið fram. Það er hluti af vandaðri lagasetningu að kanna áhrif frumvarpsins, samfélagsleg jafnt sem fjárhagsleg. Sambandið og samtökin styðja því ekki framgang þessa frumvarps óbreytt og telja skynsamlegra að framlengt verði í umræddu ákvæði til bráðabirgða og að úttekt á fyrirkomulaginu fari strax fram.“

Ég hefði viljað hafa bráðabirgðaákvæði áfram þannig að það væri raunverulegur þungi fyrir okkur og þrýstingur á að gera úttekt. Við höfum núna reynsluna af einu ári og engin úttekt hefur verið gerð. Við höfum vilyrði frá Byggðastofnun en ef viðhorf ráðherra er að þetta sé ekki forgangsmál verður úttektin hugsanlega ekki gerð. Með bráðabirgðaákvæði hefðum við verið með ákveðinn þrýsting á öllu kerfinu á að fara í úttektina, af því að það er einróma vilji nefndarinnar að gera úttekt á þessu tilraunafyrirkomulagi. Ég vil draga fram að langflestir gestanna eru nokkuð sáttir við áhrifin af breytingunum en það er líka rétt að draga fram að ýmsir, eins og Hrollaugur, smábátafélag fyrir austan, hafa mikla fyrirvara á málinu. En m.a. aðilar sem höfðu mikla fyrirvara í fyrra komu og viðurkenndu að með þeim skrefum sem atvinnuveganefnd tók í því að gera strandveiðarnar sveigjanlegri, ýta undir öryggissjónarmið, hafi öryggissjónarmiðin verið styrkt. Það er t.d. alveg ljóst í umsögn Landhelgisgæslunnar. Það er fagnaðarefni og við eigum að passa upp á þetta.

Stærsti fyrirvari minn lýtur að því. Mér finnst ekki góður bragur að lögfesta fyrirkomulag strandveiða. Ég hefði viljað sjá það í fyrsta lagi. Í öðru lagi, og það er kannski tengt úttekt, hefði ég gjarnan viljað sjá — ég veit að gerð var ákveðin úttekt eða skýrsla um almenna byggðakvótann, undir forystu Þórodds Bjarnasonar, þann skamma tíma sem ég var í ráðuneytinu. Byggðakvótafyrirkomulagið er tvískipt, þ.e. sértæki og almenni byggðakvótinn. Við getum haft skoðanir á því hvort kerfið eigi að vera svona eða ekki, en þar sem við erum með kerfið er hlutverk okkar að reyna að útfæra það sem best.

Sértæki byggðakvótinn og framkvæmd hans hefur gengið ágætlega í gegnum Byggðastofnun. Útfærslan hefur verið þannig að það ríkir augljóslega meiri sátt um það fyrirkomulag í sjávarútvegssveitarfélögum heldur en um almenna byggðakvótann. Ég held og er sannfærð um að við þurfum þá að gera ákveðna úttekt á almenna byggðakvótanum. Ein úttekt liggur fyrir. Ein skýrsla liggur fyrir og rauði þráðurinn í henni er að fela sveitarfélögunum valdið til að ráðstafa því svigrúmi sem þau hafa eða fá með almenna byggðakvótanum. Það er þeirra að meta hvað hentar hverju sveitarfélagi fyrir sig. Og talandi um Vestfirði þá er eitt fyrirkomulag sem myndi henta Súðavík, samkvæmt sveitarstjóranum á sínum tíma, og annað sem myndi henta Súgandafirði eða Suðureyri. Mér hefði þótt spennandi að sjá frekari útfærslu á því.

Fyrirvari minn lýtur því m.a. að því að ég hefði viljað fá gleggri mynd af heildinni, heildarmynd af félagslega kerfinu, og tek ég undir það sjónarmið sem hv. þm. Jón Gunnarsson kom með áðan.

Þriðja atriðið sem ég vil benda á er ekki fyrirvari og rétt að draga fram að ég ræddi það ekki sérstaklega innan nefndarinnar. En ég hefði viljað sjá að við ræddum umhverfissjónarmiðin betur, hvaða hvata við gætum byggt inn í kerfið. Það gæti komið út úr heildarendurskoðun, hvaða hvata við gætum byggt inn í kerfið fyrir smábátasjómenn varðandi umhverfismálin. Við vitum að rafvæðing fiskiskipaflotans er hafin. Stóru flotarnir eru greinilega búnir að ná niður kolefnisfótspori sínu með því að tengja flotann þegar hann er í landi. En þetta er risavaxið verkefni. Þar hefur útgerðin tekið mjög mikilvæg og ábyrg skref, sem að mínu mati er til fyrirmyndar. En ég velti líka fyrir mér hvötunum innan litla kerfisins gagnvart smábátasjómönnum. Það er handhægara, segja mér tæknimenn, til að mynda að setja fram hugmyndir sem fælu það í sér að þeir smábátasjómenn sem færu út á rafmagnsbátum fengju annaðhvort fleiri daga eða frekari ívilnanir, bara þannig að umhverfishvatar væru settir inn í kerfið. Ég hefði gjarnan viljað fá þá umræðu. Það getur beðið betri tíma en þetta er samt atriði sem verður vonandi tekið inn í úttekt á kerfinu sem slíku.

Ég tel líka mikilvægt og vona að þegar úttektin verður gerð á þessu ári — og við verðum að fylgjast afar vel með því, það er ljóst, reynslan á umliðnu ári sýnir að ekki er hægt að treysta því sem kerfið segir, sem stjórnvöld segja hvað þetta varðar, hvort úttekt muni eiga sér stað eða ekki, þannig að við þurfum að þrýsta á það — förum við betur yfir hvort við eigum í ljósi þess að hluti af strandveiðiaflanum fer í gang að skoða það að setja allan fisk á markað, gera þá kröfu. Við verðum alla vega að skoða hvað hægt er að gera í samvinnu við sveitarfélögin. Þess vegna tel ég að við þurfum, og tek undir óskir hv. þm. Jóns Gunnarssonar, að funda í atvinnuveganefnd og fara yfir þau atriði sem hann nefndi og þau sem ég hef dregið fram og líka að varða ákveðinn stíg til að við getum sannfært fólk um að sú leið sem við erum að fara núna sé rétt — þótt ég sé ekki sammála lögfestingu með tímann og hefði viljað hafa þetta bráðabirgðaákvæði — og sú skynsamlegasta í stöðunni með tilliti til þróunar sveitarfélaga, með tilliti til vinnslu aflans, með tilliti til starfa. Af hverju fækkar bátum í strandveiðiflotanum? Af hverju er það þannig, þótt ekki hafi endilega verið að marka síðasta ár, t.d. á svæði D að bátum hefur fjölgað en aflinn engu að síður minnkað?

Þetta eru hlutir sem við þurfum að fá betri svör við og það verður ekki gert nema með úttekt sem við komum okkur saman um. Ég tel mikilvægt að við komum saman í lok sumars eða strax í upphafi haustþings, jafnvel áður en þing kemur saman, til að vita hver staðan er.

Að öllu óbreyttu er staðan þessi: Við tókum ákveðin skref í fyrra og við stöndum frammi fyrir því. Á að viðhalda því kerfi? Ég segi já, en aðeins tímabundið þar til úttektin hefur verið gerð. Það eru atriði sem við þurfum að fara betur yfir en engu að síður er stóra myndin sú að öryggishlutverkið, öryggissjónarmiðin, öryggismálin hafa verið styrkt með þeim breytingum og það er ekki síst þess vegna sem ég styð þetta mál, fyrir utan það að við erum að taka betur utan um regluverkið í tengslum við strandveiðarnar.

En ég vil líka brýna þingmenn, af því að þingmenn, sér í lagi landsbyggðarþingmenn, hafa sem betur fer og skiljanlega skipt sér mikið af þessu máli, að vera tilbúnir í það að tekið verði á málinu, að hnikað verði til. Það verður að rökstyðja sérstaklega ef bæta á enn frekar inn í þennan hluta fiskveiðistjórnarkerfisins. Þess vegna skiptir miklu máli að við fáum úttekt á því, til þess að við vitum nákvæmlega hvaða skref við þurfum að taka til að styrkja í heild fiskveiðistjórnarkerfið okkar.