149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[17:16]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir framsögu um nefndarálit um frumvarp atvinnuveganefndar til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, þ.e. breytingar á strandveiðum. Ég hef áður sett ákveðinn fyrirvara við að við séum að festa það fyrirkomulag í sessi sem nú er á strandveiðunum, eða sem var á strandveiðunum síðastliðið ár og er áætlað að fest verði til frambúðar. Ástæðan fyrir því að ég hef sett fyrirvara við það er óvissan um hvernig fyrirkomulagið getur haft mismunandi áhrif eftir svæðum og jafnvel byggðarlögum. Ég sé samt sem áður ákveðna kosti í því að festa fyrirkomulagið og fylgjast frekar vel með framvindunni og hvernig fyrirkomulagið reynist, því að í því felst meiri fyrirsjáanleiki fyrir þá sem stunda strandveiðarnar. Hefur það verið staðfest í vinnu atvinnuveganefndar að meira öryggi fylgi þessu fyrirkomulagi. Svo virðist sem þessi aðferð geti tryggt verðmeiri afla og fleira hefur komið þar fram. Ég tek líka undir að það er brýnt að fyrirkomulag strandveiða nú í ár verði afgreitt sem fyrst. Það má ekki seinna vera að við gefum út hvað tekur við nú í vor hjá þeim hópi sem þessa atvinnu stundar.

Það liggur fyrir að stærstur hluti þeirra viðbótaraflaheimilda sem komu inn í kerfið í fyrra veiðist á svæði A, og þannig verður það væntanlega líka á þessu ári. Það er í sjálfu sér ekkert að því við núverandi aðstæður. Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af er að ef ytri aðstæður breytast, t.d. ef samdráttur verður í heildaraflaheimildum í öllu fiskveiðikerfinu gæti það haft áhrif á hámark aflaheimilda í strandveiðikerfinu og þá gæti orðið erfitt að tryggja að öll svæði næðu öllum þeim dögum sem þeim gefst kostur á til veiðanna. Síðan geta breytingar á vinnumarkaði haft þau áhrif að meiri ásókn yrði í veiðarnar. Veðurfar er breytilegt á milli landshluta og hefur áhrif. Fiskverð getur virkað bæði letjandi og hvetjandi og svo hefur fiskigengd eftir svæðum auðvitað áhrif á sóknina. Fiskigengd getur verið mismunandi eftir árstímum og er háð veðri og svo ýmsu öðru. Þetta er bara eins og varðandi allt sem við eigum undir náttúrunni, við getum aldrei spáð nákvæmlega fyrir um hvernig hlutirnir þróast.

Það liggur líka fyrir og kemur fram í umsögnum að menn hafa áhyggjur af þessu fyrirkomulagi og hafa gagnrýnt það. Þær umsagnir koma einkum frá Suðausturlandi og Austurlandi. Mér sýnist samt sem áður að meiri sátt sé um þetta fyrirkomulag en var á sama tíma fyrir ári þegar við vorum að ræða þá tilraun sem þá var gerð. Það var ákveðið lykilatriði í mínum huga að fram færi úttekt áður en við tækjum þessa ákvörðun. Það hefur því miður ekki tekist að ná því fram, en ég er mjög ánægð með það sem stendur í nefndaráliti atvinnuveganefndar, að nefndin leggur áherslu á að fylgst verði með þróun strandveiða í ljósi markmiðanna sem sett eru í frumvarpinu um eflingu strandveiða, eflingu smærri byggða, aukið öryggi sjómanna og nýliðun í ljósi sjónarmiða um jafnræði byggða og landshluta. Auðvitað er mjög mikilvægt, og um það verðum við öll að sameinast, að sú úttekt verði gerð sem hér hefur verið rætt að fari fram næsta vetur á kerfinu, og hún meti þessi atriði sérstaklega.

Það er líka mikilvægt að síðan fari reglulega fram úttekt í framtíðinni, hvort sem það verður á tveggja, þriggja eða fimm ára fresti, því að sveiflur geta orðið með litlum fyrirvara. Það er lykilatriði í því sambandi að þau sem standa að álitinu eru öll sammála um að leggja áherslu á þessa úttekt. Því mun ég styðja þetta frumvarp í trausti þess að þessi úttekt verði raunverulega gerð um áhrif af frumvarpinu í ljósi þessara markmiða og jafnræðis.

Strandveiðarnar skipta virkilega miklu máli fyrir atvinnulífið í ýmsum smærri byggðarlögum og það er ekkert endilega bundið við smæstu byggðarlögin, þetta eru bara ákveðin byggðarlög á landinu. Kannski myndi svona úttekt leiða betur í ljós hvaða byggðarlög það eru sem þetta hefur afgerandi áhrif á, það er ekki augljóst þegar maður horfir á Íslandskortið hvaða staðir það eru.

Svo hafa aðrir hv. þingmenn komið lítillega inn á ráðstöfun 5,3% af aflamarkinu, þess sem kallað hefur verið félagslegi hlutinn af fiskveiðikvótanum. Ég tek undir það sem þar hefur verið sagt, að það er mjög mikilvægt að fylgt verði eftir þeirri vinnu sem hafin er um framtíðarþróun á því kerfi, hvernig það kerfi nýtist til þess að styrkja byggðir, til að styrkja nýliðun og þróun smábátaútgerðar.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á hér áðan, að í þeirri vinnu er mikilvægt að horfa til vinnu sem unnin var af Byggðastofnun um það hvernig sértæki byggðakvótinn gæti hugsanlega nýst byggðarlögum til að efla atvinnu tengda sjónum, en líka til að styrkja einhverja aðra þætti í samfélaginu með því að tryggja að arðurinn af þeim fiski sem kæmi á land, eða þeim kvóta sem væri til ráðstöfunar í því kerfi, skilaði sér til einhverrar annarrar uppbyggingar í sveitarfélögunum, t.d. til að styðja við aðra atvinnuþróun samhliða strandveiðum. Því að það er alveg sama hvort við eigum að hugsa um Ísland sem heild eða einstök byggðarlög, það er alltaf þannig að því fleiri stoðir sem eru undir atvinnulífinu, þeim mun sterkari eru byggðarlögin.

En ég endurtek: Grundvöllur þess að ég styðji þetta frumvarp er að fram fari raunveruleg úttekt á næsta ári og síðan reglulega þar sem fylgst verður með þróun m.a. með tilliti til jafnræðis.