149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[17:24]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, svokallað strandveiðifrumvarp. Í frumvarpinu er miðað við að festa í sessi þær tímabundnu breytingar sem gerðar voru á strandveiðikerfinu í fyrra. Ég tek undir þær gagnrýnisraddir sem við höfum heyrt frá nokkrum þingmönnum um að gera þetta ekki aftur til bráðabirgða, þ.e. að framlengja ekki þessi bráðabirgðaákvæði, heldur eigi að festa þau í sessi. Ég tek undir þær gagnrýnisraddir vegna þess að ég tel ekki næga reynslu komna á þetta nýja fyrirkomulag til að það megi gera, þó að vel hafi tekist til síðastliðið strandveiðitímabil, þ.e. í fyrra. Ég tek undir með þeim um að ég tel að setja eigi fyrirkomulagið aftur til bráðabirgða, a.m.k. næsta tímabil.

Herra forseti. Ég fagna mjög mörgu sem finna má í frumvarpinu. Þar er margt til mikilla bóta. Vil ég nota þetta tækifæri til að þakka hv. atvinnuveganefnd fyrir þá vinnu sem nefndin hefur lagt í þetta mál, ekki síst að leitast við að sætta ólík sjónarmið. Þar vil ég sérstaklega benda á að í nefndarálitinu kemur fram að fyrirhugað er að auka hámarksaflamark upp í 11.000 tonn. Sú aukning er til þess fallin að auka líkurnar á því sem ég hef reyndar mestar áhyggjur af, að sjómenn á öllum svæðum geti sótt alla fjóra mánuðina í þá 12 daga sem heimilt er að veiða í hverjum mánuði áður en veiðar verða stöðvaðar, því að um leið og sýnt er að leyfilegum hámarksafla er náð skal Fiskistofa stöðva veiðarnar um allt land samtímis. Það er til stórkostlegra bóta að strandveiðiflotinn geti landað allt að 1.000 tonnum af ufsa án þess að sá afli verði talinn með hámarksafla. Hlutur útgerðar skips er 80% af þeim afla sem er að mínu mati vel ásættanlegt.

Ég vil einnig benda á þá staðreynd að hið nýja fyrirkomulag um dagafjölda og hámarksafla yfir allt tímabilið stuðlar að auknu öryggi strandveiðisjómanna og eru ólympískar strandveiðar með því fyrirkomulagi að mestu aflagðar. Það er mest um vert, herra forseti. Að heimila strandveiðisjómönnum að hætta þeim veiðum og fara yfir í annað kerfi sýnist mér einnig vera til bóta, enda geta verið fyrir því ýmsar ástæður, t.d. að það henti ekki alfarið öllum að stunda strandveiðar allt tímabilið og þeir geti fært sig yfir í aðrar veiðar ef því er að skipta.

Herra forseti. Það er mín von að með þessu frumvarpi verði fleirum gert kleift að stunda þessar veiðar og að fleira ungt fólk sjái tækifæri í þessum veiðum. Einnig munu þessar breytingar stuðla að ferskara og dýrmætara hráefni þar sem strandveiðikerfið er rýmra og mun opnara en áður var og menn getað vandað sig betur. Allt sem verður til þess að fámennar byggðir um allt land styrkist er til bóta.

Í nefndarálitinu kemur fram að nefndin og atvinnuvegaráðuneytið muni áfram fylgjast með þróun strandveiðanna og að Byggðastofnun muni gera ítarlega úttekt á reynslu strandveiðanna 2018 og 2019. Bendir nefndin á hvað helst þurfi þar að hafa í huga, eins og byggðafestu, öryggismál, útkomu mismunandi landshluta, sem ég legg sérstaka áherslu á, sveigjanleika í kerfinu og fiskigengd innan veiðisvæða á þessum tveimur strandveiðitímabilum. Því ber að fagna.

Fram kemur í nefndaráliti atvinnuveganefndar að almenn ánægja hafi verið að meðal umsagnaraðila með þær breytingar sem gerðar voru 2018 og að síðasta strandveiðitímabil hafi gengið vel. Hins vegar voru einhverjir sem lýstu áhyggjum sínum sérstaklega varðandi skiptingu milli svæða. Það er einmitt það sem ég hef verið að benda á.

Helsta vandamálið við þetta kerfi er að það veiðist misvel eftir svæðum. Sjómenn á einu svæði gætu þurft umtalsvert meiri tíma til að ná því sama upp úr sjó en á öðru svæði. Það fer einnig eftir tíma sumars, þar sem fiskigengd er misjöfn eftir því hvenær sumarveiðar eru stundaðar. Sést það mætavel á þeim töflum sem fylgja nefndarálitinu þar sem fram kemur að eftir upptöku þessa kerfis í fyrra, það er nú bara eitt viðmiðunarár, fjölgaði veiðidögum umtalsvert á svæði A en fækkaði fremur á hinum svæðunum. Þessar töflur virðast sýna fram á að strandveiðibátar voru fljótari að klára kvóta sinn á svæði A áður en til þessara breytinga kom, á meðan sjómenn á öðrum svæðum náðu ekki sama árangri á jafn skömmum tíma, hverju sem um er að kenna, gæftaleysi eða veðurlagi.

Ég ætla að setja þetta upp í smá dæmisögu sem mér finnst sýna í hnotskurn það sem þessi breyting hefur í för með sér. Sá sem gat veitt 6 tonn á átta dögum, áður en því svæði var lokað, hagnast meira á því að dögum sé fjölgað í 12 en sá sem þarf 16 daga til að veiða sama magn áður en hans svæði er lokað. Hjá þeim fyrri er um aukningu að ræða en skerðingu hjá hinum. Þetta er í hnotskurn það sem ég hef gagnrýnt mest, að dagahámarkið kemur misjafnt niður á milli svæða og það sést á þessum töflum. Reyndar vantar aflann þarna, ef ég hef skoðað þetta rétt. Þetta eru aðallega dagarnir.

Herra forseti. Ég lýsti einnig áhyggjum mínum af heildaraflanum við sama tækifæri í fyrra. Þær aðstæður geta skapast að heildaraflinn klárast áður en tímabilið er á enda og veiðar stöðvaðar. Þar ræður ekki bara sóknin heldur einnig utanaðkomandi öfl, og ekki bara gæftir og veður, heldur einnig fiskverð. Þegar veiðar eru stöðvaðar getur sú staða verið uppi að sum svæði hafa alls ekki náð þeim afla sem vonir stóðu til um, t.d. vegna fiskleysis eða veðurlags. Það er í sjálfu sér ágætt meðan nægur heildarafli er til staðar, en þar sem gæftaleysi eða veður hamla því að menn nái að veiða leyfilegan dagsafla getur það valdið því að þeir nái hreint ekki að veiða sanngjarnan hlut strandveiðanna.