149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[17:49]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka framsögumanni nefndarálits, hv. alþingismanni Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, ágæta ræðu um leið og ég þakka henni góða forystu í hv. atvinnuveganefnd. Fokksfélagar mínir, hv. þingmenn Karl Gauti Hjaltason og Sigurður Páll Jónsson, hafa rakið ítarlega áherslur okkar í þessu máli og því get ég haldið mig á almennari nótum.

Eins og fram kemur í nefndaráliti miðar frumvarpið að því að festa í sessi þær breytingar sem gerðar voru tímabundið á fyrirkomulagi strandveiða á strandveiðitímabilinu 2018. Með frumvarpinu er lagt til að skipting aflaheimilda milli landsvæða verði felld niður og Fiskistofu veitt heimild til að stöðva strandveiðar fari heildarafli strandveiðibáta umfram það magn sem ráðstafað var til veiðanna. Er lagt til að hverju skipi verði heimilt að stunda strandveiðar í 12 daga innan hvers mánaðar á strandveiðitímabili, þ.e. í maí, júní, júlí og ágúst.

Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að auka öryggi smábátasjómanna með því að tryggja ákveðinn dagafjölda til veiða í hverjum mánuði. Með því er komið í veg fyrir, sem ég tel afar mikilvægt, að sjómenn rói út í vondum veðrum til að keppast um að veiða heimilaðan afla áður en lokað er fyrir veiðar. Nefndin telur að þetta breytta fyrirkomulag leiði til aukins öryggis, jafnræðis og eflingar strandveiðikerfisins í heild með auknum aflaheimildum og sveigjanleika hvað varðar val á veiðidögum. Hér eru öryggissjónarmið höfð að leiðarljósi. Fyrir nefndinni hafa komið fram þau sjónarmið að val á föstum dögum geti haft í för með sér að betra hráefni fáist sem dreifist jafnar til vinnslu yfir mánuðinn, að aukið framboð verði á fersku hráefni yfir sumarið og að dreifðar byggðir styrkist. Þetta getur einnig stuðlað að aukinni byggðafestu og nýliðun í greininni.

Nefndin bendir á að fyrirhugað er að auka aflaheimildir frá því sem var á strandveiðitímabilinu 2018 þannig að hámarksaflamark verði hækkað upp í 11.000 tonn og hámarksaflamagn ufsa verði hækkað í 1.000 tonn. Að mati nefndarinnar hefur verið dregið verulega úr líkum á því að veiðar þurfi að stöðva þar sem heildarheimildir til strandveiða hafa verið auknar með þessum hætti. Að mati nefndarinnar eru allar líkur á því að þær viðbótarheimildir sem um ræðir tryggi að á öllum svæðum verði unnt að stunda veiðar í 12 daga alla mánuðina. Nefndin tekur fram að ráðherra hefur heimild samkvæmt tilgreindu ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða til að auka heildarveiði svo að unnt verði að nýta 12 daga til strandveiða í mánuðunum maí, júní, júlí og ágúst á hverju ári.

Ég vek athygli á þýðingarmiklum og upplýsandi gögnum sem fylgja nefndarálitinu þar sem sjá má veiðidaga á strandveiðum eftir svæðum og mánuðum á árunum 2010–2018 og nýtingu leyfilegra daga og nýtingarhlutfall leyfilegra daga á tímabilinu 2013–2018. Nefndarálitið er mjög upplýsandi um ýmsar ábendingar sem fram hafa komið og viðbrögð við þeim. Meðal þeirra eru áhyggjur vegna skiptingar milli svæða eins og hv. þm. Karl Gauti Hjaltason rakti vel í sinni ræðu og sem ég tel mjög skiljanlegar.

Mikilvægur þáttur í málinu eins og það liggur fyrir nú er að samþykki liggur fyrir um að að loknu strandveiðitímabilinu í ár muni Byggðastofnun gera ítarlega úttekt á reynslu síðustu tveggja strandveiðitímabila. Að mati nefndarinnar þarf í úttektinni að leggja áherslu á byggðafestu, öryggismál, útkomu mismunandi landshluta, sveigjanleika í kerfinu og fiskigengdar innan veiðisvæða á tímabilinu. Að niðurstöðu fenginni gefst hv. atvinnuveganefnd tækifæri til að vinna að frekari endurbótum á strandveiðikerfinu í samráði við strandveiðimenn á svæðunum fjórum og hagsmunasamtök þeirra fyrir strandveiðitímabilið 2020. Óskað verður eftir því að úttektin liggi fyrir eigi síðar en 1. febrúar 2020.

Herra forseti. Frumvarpið felur í sér að festa strandveiðarnar í sessi og styrkja lagalega umgjörð um þær. Ýmislegt er óunnið í því efni en ég tel mega binda miklar vonir við úttekt Byggðastofnunar og þróun og umbætur á hinni lagalegu umgjörð á vettvangi hv. atvinnuveganefndar í ljósi slíkrar úttektar.