149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[18:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að óska hv. atvinnuveganefnd og sérstaklega formanni hennar, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, til hamingju með þennan merka áfanga. Ég ætla að byrja á því að segja við hv. þingmann: Hvernig stendur á því að nafnið mitt er ekki á þessu frumvarpi? Ég hefði verið svolítið glöð með það. Einhverra hluta vegna hefur það skolast til og ég hélt að það væri erfitt að — (LRM: Við bætum úr því.)

Atvinnuveganefnd hefur fengið 14 innsend erindi og umsagnir með frumvarpinu. Þegar ég var sem virkust í hv. atvinnuveganefnd fór ekkert á milli mála að menn lögðu sig virkilega fram um að taka á móti þeim umsögnum og fylgja þeim eftir með því að gefa umsagnaraðilum kost á að koma fyrir nefndina og ræða málin — margt er gert og eiginlega allt reynt til að koma til móts við þarfir allra en auðvitað er það ekki hægt.

Flokkur fólksins hefur ákveðna stefnu í strandveiðum, hefði viljað gefa strandveiðar frjálsar fyrir handfæri. Það er önnur saga. En mig langar að ræða nokkrar umsagnir, sérstaklega þrjár til fjórar umsagnir, sem okkur bárust, sem voru mjög athyglisverðar. Ég vil líka nefna, áður en lengra er haldið, að ég heyrði í formanni smábátaeigenda, Erni Pálssyni, í Bítinu, tala um þá stöðu sem er að koma upp í lífríkinu okkar, að þorskstofninn sé sennilega í sögulegu hámarki. Yfir 40% af þorski sem veiðist er yfir átta kíló. Við vitum að það er loðnubrestur og svo kemur í ljós að þessir risaþorskar eru fullir af litlum þorskum.

Mig langar, með leyfi forseta, að vísa í umsögn Landssambands smábátaeigenda sem hafa talið þetta vera til bóta en vilja samt sem áður einbeita sér að þessum 48 dögum sem eru heimilaðir í veiðina þar sem það er hólfað þannig niður að það eru tólf dagar á hvern mánuð, sem verður til þess að það flyst ekki á milli. Þó að ekki sé veður til veiða nema sex daga í júní fá þeir ekki að taka sex daga með sér yfir í júlí. Mér sýnist að það sé það sem helst sé sett út á, að þeir skuli ekki fá 48 daga og fá að nýta sér þá eins og þeir vilja. Það er verið að tala um öryggi og að koma í veg fyrir hinar svokölluðu ólympísku veiðar en óneitanlega verður ákveðin tilhneiging til þess þegar keppast þarf við það af öllu afli að ná tólf dögum, hvort sem veður leyfa ekki. Menn leggja þá frekar út í óvissu, í hvaða veðri sem er. Við skulum gefa okkur að líða fari að lokum mánaðarins og viðkomandi eigi eftir sex daga — og kannski sjö dagar eftir af mánuðinum. Þá reynir sá sem í hlut á náttúrlega eins og mögulegt er að sækja sjóinn hvernig sem viðrar.

Ein hinna innsendu umsagna vakti sérstaka athygli mína. Mig langar aðeins að vísa í hana. Hana skrifa, þann 3. apríl 2019, Jón Kristjánsson fiskifræðingur og Sigurjón Þórðarson, fyrrverandi þingmaður og líffræðingur. Okkur er alveg óhætt að taka mark á því sem þar segir. Þó að þeir séu ekki starfsmenn hinnar virtu Hafrannsóknastofnunar er vert að hlusta á það sem þeir hafa að segja — þróunin í lífríki sjávarins hefur verið á þann veg að ástæða er til að hlusta. Það er skoðun þeirra að verulega þurfi að auka bolfiskveiðar á grunnslóð og sérstaklega innfjarðar til að auka framleiðslugetu nytjastofna landsins og aukinn afli myndi auk þess bæta hag sjávarbyggðanna. Það segir sig sjálft. Við vitum um þessi litlu sjávarþorp úti um allt land þar sem allt líf er nánast að leggjast niður. Það er enginn grundvöllur lengur og unga fólkið flytur burt. Meðalaldur í þessum litlu plássum er orðinn ansi hár.

Ég ætla að halda áfram, með leyfi forseta:

„Nýlega birtist skýrsla frá Hafró um að rækjustofnar innfjarða hefðu gefið eftir samfara fjölgun þorsks og ýsu, en mjög hefur dregið úr sókn á grunnslóð, m.a. vegna þeirra takmarkana sem kvótakerfið setur á veiðar smábáta. Segir þar að áberandi breytingar hafi orðið í lífríkinu í sex fjörðum og flóum á Vestfjörðum og Norðurlandi á tveimur áratugum frá 1995. Rækja hafi átt í vök að verjast vegna vaxandi afráns þorsks og ýsu sem hafi endað með því að rækjustofnarnir inni á þessum fjörðum hafi hrunið. Í Ísafjarðardjúpi gat rækjuafli verið milli tvö og þrjú þúsund tonnum á vertíð fram að aldamótum, en í vetur er heimilt að veiða þar 456 tonn. Þar sem ástandið er verst hafa engar veiðar verið leyfðar frá aldamótum. Sjá má nánari umfjöllun um þessa skýrslu í Morgunblaðinu 21. febrúar 2019 undir titlinum: Afránið fór illa með rækjuna. — Með fjölgun þorsks og ýsu í fjörðum og flóum fyrir vestan og norðan gáfu rækjustofnar eftir.

Forsaga málsins er sú að með tilkomu kvótakerfis og mikils niðurskurðar þorskafla til þess að reyna að „byggja upp“ stofninn hefur stórlega dregið úr sókn í innfjarðaþorsk með þeim afleiðingum að rækjan er upp étin og reyndar humarinn fyrir Suðurlandinu einnig. Þá er hann líka búinn að grisja vel seiði flatfiska og fleiri tegunda. Rækjudeildin er búin að benda á þetta í áratugi en má sín lítils gegn þorskadeild Hafró. Til að bregðast við þessu ætti að gefa fiskveiðar innfjarða frjálsar, það myndi gefa meiri fisk og meiri rækju.

Þorskurinn er langt kominn með að éta upp loðnuna, búinn með rækjuna, humarinn, lúðuna og flatfiska á grunnsævi og ungviði sjálfs síns.

Spurt hefur verið hvort frjálsar veiðar smábáta muni ekki leiða til ofveiði [og því] er til að svara að fyrir nokkrum árum var ákveðið að minnka nýtingarhlutfall þorsks frá því að vera 35–40% af stofnstærð áratugum saman niður í 20% til þess að byggja upp stofninn. Þessi 35% nýting gaf 400–500 þús. tonna árlegan afla langtímum saman sem sýndi að stofninn þoldi álagið vel. Eftir að nýtingarhlutfallið var lækkað féll aflinn og jafnframt minnkaði nýliðun. Þetta stafar af því að fæðuframboð hafsins leyfði ekki svo stóran stofn og hann fór að éta undan sér.“

Virðulegi forseti. Það er í raun skrýtið að við virðumst alltaf vera að tala um það sama. Það er lítið um breytingar. Við þurfum að horfast af alvöru í augu við vandann í lífríkinu í kringum landið. Við horfum upp á loðnubrest. Við horfum, eins og kemur fram í þessari umsögn, hvort sem við lítum til rækju, humars, flatfisks eða annars, fram á alvöru málsins. Það er alvarleg staða að þorskurinn skuli vera farinn að éta undan sjálfum sér. Það er grafalvarlegt mál. Kannski er kominn tími til fyrir minn góða formann atvinnuveganefndar, hv. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, að stíga út fyrir rammann og vera svolítið hugrökk í þessu. Ég væri til í að slást í för með henni hvað það varðar að gera a.m.k. tilraunir á einhverjum stöðum þar sem við getum virkilega skoðað þessa hluti. Við vitum að það yrðu ekki strandveiðar eða færaveiðar smábáta sem mundu rústa stofninum. En þegar við horfum upp á það, eins og fram hefur komið, að yfir 40% veiddra þorska séu meira en átta kíló — þetta eru engir smámallar, og fullir af sjálfum sér, þorskum sem þeir hafa verið að éta því að loðnan er farin — þá verðum við eiginlega að fara að grípa inn í og gera það af einhverju afli.

Áfram segir í áðurnefndri umsögn:

„Stofnstærð þorsks hefur náð mögulegu hámarki sínu og stofninn getur ekki stækkað meir. Meðan nýtingarhlutfallið er ekki hækkað fer þorskaflinn ekki mikið yfir 250 þús. tonn …“

Eins og áður var vísað til í umsögninni var þessi sami afli á árum áður 400–500 þús. tonn. Það eru engir smáaurar, engir smáhagsmunir, fyrir þjóðarbúið að ná utan um þetta. Hér er ég ekki að boða það að fórna eigi þeim árangri sem hefur náðst með stýringu í auðlindinni, alls ekki, heldur er kannski tímabært að skoða afleiðingarnar eins og við sjáum þær núna, hvort við getum kannski snúið þessari þróun við og hlustað aðeins á aðra en alltaf þá sömu og a.m.k. borið rökin saman, vegið og metið og fengið niðurstöðu sem flestir geta við unað.

Ég ætla ekki að halda mikið lengur áfram með þetta. Ég var á fundi hv. atvinnuveganefndar um daginn. Maður heyrir líka raddir sem eru ekki allt of glaðar. Það er verið að tala um að það sé mismunun á milli þeirra svæða sem við erum að byggja á, svæði A, B, C og D. Það hefur líka komið fram gagnrýni á að þetta skuli vera sett í einn sameiginlegan pott. Þetta gekk mjög vel í fyrra og sú tilraun sem við fórum af stað með þá í hv. atvinnuveganefnd, og í mjög góðri sátt yfirleitt, tókst vel. Það eru raddir sem eru með svör á reiðum höndum hvers vegna ekki náðist að ljúka við að veiða þann afla sem þó var heimilaður. Það er sagt einhvers staðar að horfa verði til þess að einstaklega slæmt veðurfar hafi verið á nær öllu landinu sem hamlað hafi sókn í auðlindina.

Svo má tala um það að við skulum hafa verið að festa þetta í sessi eftir að hafa verið með tilraunina í eitt ár. Við hefðum alveg getað komið meira til móts við suma og haft þetta áframhaldandi tilraun, fyrst búið er að bæta enn betur í ufsann og jafnvel auka við þorskinn. Það er vel. Við hefðum lægt einhverjar öldur ef við hefðum sleppt því að festa þetta alveg í sessi en haldið áfram með aðlögun í eitt ár. Hugsanlega verður betra veður í sumar en þá er a.m.k. ekki því til að dreifa, sem haldið er fram, að aflinn hafi ekki náðst vegna slælegs veðurs og erfiðrar sjósóknar.

Hrollaugur heitir félag smábátaeigenda, á Höfn í Hornafirði minnir mig. Í umsögn þess er talað um að gefa þurfi strandveiðimönnum eðlilegt svigrúm til að nýta daga sína, takmarka ekki tólf daga innan hvers mánaðar heldur veita til dæmis 48 daga yfir allt tímabilið.

Smábátafélagið Fontur styður ekki frumvarpið. Í umsögn þess segir:

„Svæðið okkar C hefur beðið hnekki á þeim breytingum sem voru gerðar til prufu og á nú að festa með lögum.“ — þ.e. með því að hafa kerfið í einum potti. „Maímánuður er ekki góður til handfæraveiða þar sem fiskur er genginn yfir og mjög treg veiði, smár fiskur sem skilar mjög lágu verði og er ekki hagkvæmt að sækja.“

Ég treysti því að hv. atvinnuveganefnd eigi eftir að gera enn betur. Það má alltaf breyta og bæta. Og jafnvel þó að við séum að festa kerfið í sessi — sem ég hefði viljað hafa einu ári lengur í aðlögun — getum við samt sem áður séð hvernig gengur í sumar og svo bara breytum við í kjölfarið. Ég óska strandveiðimönnunum okkar góðs gengis í sumar og vona að þeir geti vel við unað um leið og ég skora á Alþingi að stíga út fyrir rammann og sjá öll sjónarmið og hugsa til þess hvort við getum kannski, með því að auka aflaheimildir í þorskinn og annað slíkt, gjörbreytt þeirri þróun sem er að verða í lífríkinu í kringum landið. Það er ekki nóg að safna bara þorskum sem éta sjálfa sig. Við verðum aðeins að horfa út fyrir boxið og þora að taka ákvarðanir þó ekki séu allir sammála, prófa eitthvað nýtt.