149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[18:16]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég endurtek það sem ég kom inn á í ræðu við 1. umr. þingsins um fyrirhugaða breytingu á löggjöf um stjórn fiskveiða: Ég undrast allar þær takmarkanir sem eru í frumvarpinu, eins og það tvöfalda aflaþak sem er til staðar, pottur fyrir veiðarnar og pottur fyrir hvern bát á dag og einnig að einungis megi veiða á sérstökum dögum vikunnar og það með takmörkuðum fjölda rúlla. Sjálf er ég á meirihlutaáliti hv. atvinnuveganefndar með fyrirvara, sem snýr fyrst og fremst að því að lögfesta eigi fyrirkomulag sem ekki liggja fyrir nægar upplýsingar um til að skapa upplýstar forsendur til að byggja varanlega lagasetningu á. Í ljósi þess að við erum að ræða félagslega kerfi fiskveiðistjórnar og í ljósi þeirrar mikilvægu umræðu sem oft fer fram í þingsal þá snýr þetta svo mikið að hagsmunum þeirra brothættu byggða sem við ræðum oft og okkur löggjafanum ber hreinlega að vanda sem mest til verka í því mikla hagsmunamáli þjóðarinnar.

Það er ekki góður bragur á því að festa löggjöf varanlega í sessi sem ekki liggja til grundvallar nógu vandaðar upplýsingar þegar, eins og í þessu dæmi, vel er hægt að afla þeirra. Úttekt Byggðastofnunar er ekki lokið og því er ótímabært að festa löggjöfina varanlega í sessi. Eins og áður segir snerist fyrirvari minn á meirihlutaálitinu einna helst að því atriði. Staðið hafði til að fara í úttekt á reynslu síðasta árs en þá úttekt hefur enn ekki verið farið í og eðli málsins samkvæmt skortir okkur hreinlega þær upplýsingar sem úttektin hefði gefið til þess að taka upplýsta ákvörðun sem löggjafi um hvert besta mögulega fyrirkomulag þeirra mála gæti verið.

Þar sem klukkan tifar og það veiðitímabil sem löggjöfin snýr að fer að bresta á innan nokkurra vikna tek ég undir þá áherslu sem formaður hv. atvinnuveganefndar hefur sett á að ljúka málinu fyrir páskaleyfi og leyfa mönnum að komast á miðin. En það er ekki góður bragur á því að þinginu sé hálfpartinn stillt upp við vegg með tímapressu til að klára að festa í sessi varanlega löggjöf. Úr því atriði má bæta með því að þær breytingar sem um ræðir verði aftur tímabundnar, þangað til niðurstöður úttektarinnar liggja fyrir. Þá væri hægt að ráðast í að gera tillögu að lagasetningu í varanlegum tilgangi. Ég vænti þess að fagleg og vönduð vinnubrögð séu í hávegum höfð í þingheimi og í forgangi og að þegar niðurstöðurnar liggi fyrir verði löggjöfin endurskoðuð með tilliti til þeirra upplýsinga. Ég fagna hugmyndum hv. þm. Jóns Gunnarssonar um að málið gangi til nefndar á milli 2. og 3. umr. svo að hægt verði að taka þetta atriði sérstaklega fyrir í hv. atvinnuveganefnd.

Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga fjallar einmitt um þetta atriði og í ljósi þess að nokkrir nefndarmenn eru á nefndarálitinu með fyrirvara vegna þess og þess að þingmenn stjórnarflokks hafa tekið undir þann fyrirvara í ræðustól í dag hlýtur að liggja ljóst fyrir að eðlilegt sé að taka þetta fyrir í nefndinni með það að markmiði að gera úrbætur á því atriði.

Eins hef ég, forseti, gagnrýnt stóra svæðismálið í því samhengi. Án þess að ég fari jafn djúpt í það og ég gerði í 1. umr. þá er þetta hreinlega brot á jafnræði á milli svæða. Þetta er eitthvað sem ég hefði viljað sjá annað fyrirkomulag á. Stefna okkar ætti að vera að aflétta miðlæga pottinum og bæta við aukategundum til að fá þær í land. Þá held ég að sem flestir væru sáttir við sinn hlut. Það væri ekki rosalega dramatískt stökk.

Ég set líka spurningarmerki við heimild ráðherra til að stöðva veiðar.

Eins og fram hefur komið hefur náðst sátt um þetta mál og við sjáum hér sveigjanlegra kerfi. Við sjáum öryggissjónarmið styrkt sem og öryggi smábátaeigenda. Það er mjög jákvætt. Við sjáum víðtækari sátt, svo að ekki sé meira sagt, við það sem fór fram í fyrra. Í umsögn Landssambands smábátaeigenda, þar sem það lýsir yfir stuðningi við frumvarpið, segir að frumvarpið færi strandveiðar nær kröfu smábátaeigenda um aukið frelsi til handfæraveiða.

Fyrir þinginu liggur frumvarp okkar Pírata um frjálsar handfæraveiða og því telur sú sem hér stendur rakið fyrir þingið að klára málsmeðferð þess frumvarps og koma því fljótlega inn í löggjöf Íslands um stjórn fiskveiða. Strandveiðum var komið á árið 2009. Nú sjáum við næsta rökrétta skref í þeim efnum og ég fagna því sannarlega.

Ég ítreka þá afstöðu mína að næsta rökrétta skref sé frumvarp okkar Pírata um frjálsar handfæraveiðar. Sú saga að frjálsar handveiðar smábáta eigi eftir að kollvarpa fiskimiðunum á við mjög lítil rök að styðjast að mér best vitandi. Við höfum fordæmi t.d. í Noregi. Það væri miklum erfiðleikum háð að valda skaða með handfæraveiðum. Í ljósi veðurbeltisins sem við búum í á þessari eyju er, eftir því sem ég best veit, ekki hætta á að skaða miðin með því að löggjöfin leyfi frjálsar handfæraveiðar.

Enn og aftur fagna ég þessu rökrétta skrefi. Sem aðalmaður í atvinnuveganefnd er ég tilbúin til að verða við þeirri ósk sem hefur komið fram um að funda á þingfundatíma um þetta mál milli 2. og 3. umr.

Ég vil að það komi fram enn og aftur að þetta er rétt skref, en betur má ef duga skal í stjórn fiskveiða á Íslandi.