149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

stjórn fiskveiða.

724. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram um þær breytingar sem verið er að gera á lögum um stjórn fiskveiða hvað varðar strandveiðar. Ýmislegt hefur komið fram í umræðunni. Því miður er ekki tafla í nefndarálitinu sem lýtur að því magni sem hvert og eitt svæði var með miðað við að það voru 12 fastir dagar en ekki settur inn afli á hvert svæði eins og verið hefur í gegnum árin. Það ánægjulega er að menn juku það aflamark í hverri veiðiferð á þeim svæðum þar sem vissulega var möguleiki á að fara í fleiri róðra, en það var ekki þar með sagt að menn færu í róður í 16 daga þó að aflinn væri ekki búinn á þeim svæðum. Auðvitað réði þar ýmislegt, sérstaklega veður.

Ég er hér með upplýsingar um síðasta sumar. Alls voru farnir 15.000 róðrar sumarið 2018 þar sem aflinn var að meðaltali 655 kíló á dag, ég bið þingmenn að taka eftir því. Hámarkið er um 650 kg sem koma má með í land á hverjum degi. Frá upphafi strandveiða hefur dagsafli ekki verið meiri. Ég undirstrika það vegna þess að komið hafa fram áhyggjur af því að verið sé að skerða ákveðin svæði en lyfta öðrum upp, að dagsafli hefur ekki verið meiri að meðaltali frá upphafi strandveiða en var þegar 12 daga kerfinu var komið á í fyrra. Afli strandveiðibáta í fyrra var að meðaltali 17,8 tonn, sem er 1,3 tonnum meira en árið 2017. Fjöldi báta var 229 þar sem afli var umfram 20 tonn yfir sumarið, þ.e. fjöldi báta sem voru með meira en 20 tonn yfir sumarið. Það er 24 bátum fleiri en árin á undan. Það undirstrikar bara það sem talað hefur verið um og kemur fram í nefndaráliti, að menn gátu róið á þeim dögum þegar gæftir voru góðar, meiri möguleikar voru á góðu fiskiríi og þar með á hærra verði á afla. Það skiptir máli. Vissulega voru færri dagar á A-svæði. Ef það er skoðað aftur í tímann þá fjölgar dögum á svæði A eftir því sem á líður. Við tölum hér um jafnræði. Það svæði var langt á eftir öðrum svæðum hvað varðar magn inn á svæðið til að geta farið í álíka margar veiðiferðir og á öðrum svæðum. Nú tel ég að búið sé að mæta því, að jafnræðið hafi verið aukið milli svæða sem og möguleikar manna til þess að fá sem mestan afla í hverjum róðri og líka bestan afla með tilliti til verðs.

Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við festum þetta frumvarp í lög núna. Það er komin góð reynsla af strandveiðum, reynslan var góð síðasta sumar. Þorri þeirra sem komu að strandveiðum og þeirra stærstu samtök, Landssamband smábátaeigenda, mæla með því að við festum fyrirkomulagið í löggjöf. Við í atvinnuveganefnd höfum sammælst um að nú skuli tryggt að Byggðastofnun geri úttekt á þessum tveimur sumrum og að við getum komið með lagfæringar og endurskoðun eftir því sem við á þegar niðurstöður þeirrar úttektar liggja fyrir. En þá er mikilvægt að búið sé að festa lagaumgjörð um strandveiðar og að við byggjum á þeim grunni. Það er ekki sjálfgefið að við gerum það ef við höfum þetta aftur til bráðabirgða.

Það er ekki sjálfgefið að ná utan um þetta mál í jafn breiðri sátt og náðst hefur, bæði meðal hagsmunaaðila og þingmanna, burt séð frá flokkum, svo þetta er ákveðinn línudans. Ég tel gott að landa þeim afla sem kominn er í höfn en stefna að því að landa því sem á vantar í framhaldinu með það í huga að auka jafnræði og styrkja og efla strandveiðar og horfa til þess að við getum haft þann sveigjanleika í kerfinu sem þarf og að fiskigengd er mismunandi eftir landsvæðum, að við getum stillt því þannig upp að möguleiki sé á að það geti verið einhver sveigjanleiki á milli mánaða eða stytt í tímabilinu, þessum 48 dögum, eða lengt það eftir því hvaða landsvæði á í hlut. Það munum við fara vel yfir og ræða í atvinnuveganefnd.

En það er nauðsynlegt að halda áfram að byggja á einhverjum föstum grunni. Þess vegna legg ég mikla áherslu á að við lögfestum það sem komið er núna því að ekki hefur komið gagnrýni á það heilt yfir að við séum að fara inn í 12 daga kerfi, heldur vilja menn sjá ýmislegt í þessum efnum. Það er mjög mismunandi hvað það er eftir landsvæðum, eins og gengur. En þegar meiri hluti er fyrir þessu hjá lýðræðislega kjörnum samtökum eins og Landssambandi smábátaeigenda er brýnt að tryggja það sem við erum búin að ná samstöðu um, og síðan getum við byggt áfram ofan á það. Þá held ég að löggjafinn eigi að hlusta á það og klára það sem við höfum í hendi núna og halda áfram að vinna þétt saman að málinu til að gera það betra.