149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[18:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir nefndarálitið og nefndinni allri fyrir að hafa unnið þetta mál hratt og vel. Mig langar þó aðeins að segja eitt út af því sem rætt var í fyrri andsvörum. Ég held að borinn sé út póstur þrisvar í viku hérna á höfuðborgarsvæðinu, getur það ekki passað? (Gripið fram í.) Tvisvar til þrisvar í viku. Fyrir mitt leyti mætti það alveg vera sjaldnar. Ég þoli ekki bréfpóst og sé enga ástæðu til þess á nútímaöld að vera stöðugt að bera út einhvern bréfpóst með tilheyrandi kostnaði og kolefnisspori. Aftur á móti þegar kemur að því að fá pakkasendingar og annað þarf maður iðulega að fara á pósthús og þá hef ég samúð með þeim sem búa fjarri pósthúsum. Þess vegna myndi ég gjarnan vilja sjá póstþjónustuna okkar stokkaða svolítið upp.

Þá kem ég að spurningunni til hv. þingmanns: Var einhver umræða í tengslum við frumvarpið um hvernig þessi ákvörðun fylgdi okkur inn í framtíðina? Eins og hv. þingmaður kom inn á er stóra frumvarpið, ef svo má að orði komast, auðvitað um póstinn. Ég held að það sé full ástæða til þess að við tökum póstþjónustu hér á Íslandi til gagngerrar endurskoðunar. Þá er ég ekki að vísa í að draga eigi úr þjónustu með einhverjum hætti, heldur er ég fyrst og fremst að spá í hvort vera þurfi stofnun sem sé í eigu ríkisins, þó að hún sé ohf., sem sjái um alla þessa þjónustu úti um land allt, eða hvort til séu hagkvæmari lausnir. Það var fyrsta spurningin.

Mér finnst mjög mikilvægt að fram komi í nefndarálitinu að áréttað sé að gjald þetta skuli ekki notað til að standa straum af neinum öðrum kostnaði en þeim sem beint má leiða af hinum erlendu póstsendingum, þ.e. að ekki megi mæta taprekstri vegna annarra þátta með þessu gjaldi.

Svo er það að lokum þessi spurning: Var það eitthvað rætt af hverju þessi hugmynd eða frumvarp kom fram núna? Því að við erum búin að sjá þennan taprekstur hlaðast upp í svolítinn tíma og þessar Kína-sendingar, eins og þær hafa verið nefndar, eiga auðvitað hlut að máli, þó ekki allan. Þannig að ég velti því fyrir mér hvort þessi umræða hafi verið lengi í (Forseti hringir.) stjórnkerfinu eða hvort hún sé ný.