149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[18:52]
Horfa

Frsm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Maður er kominn á þann aldur að það að fara í póstkassann sinn og sækja gluggaumslögin vekur ekki sama krampann eins og það gerði hér stundum. En ég get alveg tekið undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, að umhverfið hefur tekið gríðarlega miklum breytingum. Auðvitað hlýtur það að vera markmið okkar í framtíðinni sem samfélags í stóra samhenginu að reyna að koma þessu eins mikið í rafrænt form og hægt er.

Ég tel að ríkið ætti að ganga á undan með ágætu fordæmi og hafa mörg fyrirtæki tekið það upp. Einhvern veginn þarf samt að tryggja þessa alþjónustu til borgaranna. Það er hlutverk ríkisins að gera það. Það er ekki síst mikilvægt til sveita þar sem lengra er að fara til að sækja hvort sem er póstþjónustu eða aðra þjónustu. Þannig að það verður auðvitað að taka sérstakt tillit til þess og ég gef engan afslátt af því í hugmyndum mínum. En ég tel að hægt verði að leita miklu hagkvæmari leiða þegar þetta verður markaðsvætt. Ég er algjörlega sammála því sjónarmiði sem fram kom hjá hv. þingmanni, ég tel að sú starfsemi eigi ekki að vera í höndum ríkisins, að reka fyrirtæki í kringum þessa starfsemi í framtíðinni, heldur eigi það fyrst og fremst að vera verkefni ríkisins að tryggja þessa þjónustu til borgaranna.

Annar taprekstur póstsins er áhyggjuefni. Í breyttu umhverfi hafa mál þróast með þeim hætti að þessi rekstur er erfiðari, það gefur augaleið. Það er alveg skýrt að þessi gjaldtaka — og við tryggjum það með því að skylda eftirlitsaðilann til þess að gera frumkvæðisathugun á málinu. Málið kom fram einhvern tímann á haustdögum (Forseti hringir.) frá ráðuneytinu en það tekur tíma að vinna svona frumvörp svo að vel sé. Þetta mál kemur kannski óþægilega seint fram, en við munum klára það fljótt og vel.