149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[18:59]
Horfa

Frsm. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú sat hv. þingmaður, eftir því sem ég man best, flesta ef ekki alla þá nefndarfundi sem við héldum út af málinu. Þar kom fram að erfitt væri fyrir nefndina að veita einhvers konar opinn tékka til póstsins í því sambandi án þess að hafa fulla vissu fyrir því að einungis væri verið að innheimta gjald sem stæði undir umræddum sendingum. Þess vegna komst nefndin að þeirri niðurstöðu og slær þann varnagla og gerir þær breytingar á lögunum að Póst- og fjarskiptastofnun, sem er eftirlitsaðili póstsins, skuli gera frumkvæðisathugun á því og beri skylda til að vera búin að fara yfir og staðfesta nákvæmlega þetta atriði, að gjaldtakan verði einungis til að standa undir kostnaðinum sem um ræðir og ekki öðrum.