149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[19:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni, formanni umhverfis- og samgöngunefndar, fyrir fína yfirferð yfir málið, þar sem hann reifaði nefndarálit sem lagt var fram og breytingartillögur sem nefndin var sammála um. Mig langar til að fara aðeins yfir málið þar sem ég skrifaði undir með fyrirvara sem lýtur að því að hnykkja enn frekar á þessum álitamálum sem komu upp í umfjöllun nefndarinnar á þeim stutta tíma sem hún hafði. Ég verð eiginlega að byrja á því að koma með einhverjar tvítekningar og fara í nefndarálitið, enda er þetta sama nefndarálit. Þar kemur fram að nefndin áréttar að gjaldinu, sem mælt er fyrir um í frumvarpinu, er ætlað að bæta það tap sem Íslandspóstur telur sig verða fyrir vegna óhagstæðra endastöðvargjalda sem mælt er fyrir um í alþjóðapóstsamningnum. Í samningnum er ríkjunum skipt eftir landsvæðum og fer sú skipting eftir því hversu þróuð ríkin eru talin vera samkvæmt mati Alþjóðapóstsambandsins á hverjum tíma. Þau eru sem sagt hærri þegar um þróaðri ríki er að ræða og tap rekstrarleyfishafa, þ.e. Íslandspósts, er því mismunandi eftir því frá hvaða erlenda ríki eða landsvæði póstsendingin kemur.

Í vinnu sinni lagði nefndin áherslu á að gjaldskrá, umbeðin gjaldskrá, vegna erlendra póstsendinga skuli endurspegla þennan óbætta raunkostnað rekstrarleyfishafa á mismunandi svæðum. Gjaldið skuli því taka mið af því hvaðan sendingin kemur ef það hefur áhrif á óbættan raunkostnað rekstrarleyfishafa, eins og það er orðað. Og nefndin áréttaði að þetta gjald skuli ekki vera notað til að standa straum af neinum öðrum kostnaði en þeim sem leiða má beint af þessum erlendu póstsendingum. Með öðrum orðum, taprekstri Íslandspósts vegna annarra þátta verði ekki mætt með þessu gjaldi. Hér liggur þá fyrirvarinn ekki síst og ég kem nánar að því hér á eftir af hverju ég taldi þörf á honum.

Líkt og kom fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar með Póst- og fjarskiptastofnun hefur stofnunin annaðhvort farið ofan í kostnaðargrunn verðskrár Íslandspósts á grundvelli kæru eða í tengslum við eigin frumkvæðisathugun. Sú vinna getur tekið töluverðan tíma. Nefndarmenn voru einhuga um það að til að tryggja strax í upphafi að gjaldtakan, eða fjárhæð gjaldsins, byggist á raunkostnaði verði kveðið á um það í lögunum að Íslandsbanki skuli gera Póst- og fjarskiptastofnun grein fyrir kostnaði á grundvelli gjaldskrárinnar eigi síðar en fimm virkum dögum áður en hún tekur gildi. Og líkt og formaður kom inn á áðan skal Póst- og fjarskiptastofnun þannig hafa frumkvæðisskyldu til að bera, hafa fyrir fram eftirlit með því að gjaldskráin taki mið af þeim óbætta raunkostnaði sem hlýst af þessum erlendu póstsendingum. Með þessu móti reyndi umhverfis- og samgöngunefnd að koma til móts við sjónarmið þeirra sem hafa varað við hættunni á því að neytendur sem nýta sér póstsendingar erlendis frá, í skjóli þessarar lagabreytingar, borgi aðra brúsa líka í rekstri Íslandspósts.

Nú hafa málefni fyrirtækisins verið allmikið í umræðu í vetur, ekki síst eftir að í ljós kom að fyrirtækið þurfti neyðarlán frá ríkissjóði. Það er alveg ljóst að það kom flestum nokkuð í opna skjöldu hversu alvarleg staða fyrirtækisins var orðin þegar þetta komst í hámæli. Fyrirtækið væri í raun komið í greiðsluþrot, nyti ekki lengur lánstrausts hjá viðskiptabanka sínum og þyrfti að leita atbeina ríkissjóðs til að greiða út laun, hvað þá annað, eins og kom fram í umræðunni þá. Hér er um að ræða fyrirtæki í eigu ríkisins sem sinnir annars vegar þjónustu á sviði einkaréttar í póstþjónustu, en er að sama skapi ansi umfangsmikið í ákveðinni samkeppnisstarfsemi. Þess vegna er mjög brýnt að góður aðskilnaður sé á milli einkaréttarstarfsemi fyrirtækisins og síðan samkeppnisstarfseminnar og eins koma óhjákvæmilega upp ýmis álitaefni þegar ríkissjóður þarf að hlaupa með þeim hætti sem hér hefur verið lýst undir bagga með rekstrinum. Þetta mál sem við ræðum hér og afgreiðum, ef að líkum lætur, er að vissu leyti slíkt álitamál vegna þess að kostnaðargrunnurinn liggur ekki fyrir.

Á undanförnum árum hefur félagið varið um 3 milljörðum kr. í fjárfestingar, m.a. í ýmsum samkeppnisrekstri til að freista þess að skjóta stoðum undir reksturinn, en þær fjárfestingar virðast ekki hafa skilað tilætluðum árangri. Þvert á móti liggur eftir fyrirtækið slóð kvartana vegna ófullnægjandi aðskilnaðar einkaréttar og samkeppnisrekstrar, ásakanir um undirboð og ógagnsæi í starfseminni og þannig mætti áfram telja. Stjórnvöld hafa ekki til þessa tekið með nægjanlegum hætti á undirliggjandi vanda félagsins. Eftirliti með starfseminni virðist hafa verið verulega ábótavant og einhvern veginn er tilfinningin sú að boltanum hafi stöðugt verið kastað eins og heitri kartöflu á milli aðila, á milli fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og Póst- og fjarskiptastofnunar. Og á meðan sigldi Íslandspóstur í þrot.

Það er líka ástæða til að skoða hvort skýringar félagsins sjálfs á ástæðum taprekstrarins eigi fyllilega við rök að styðjast. Það hefur verið gagnrýnt af hálfu keppinauta að félagið standi í skipulögðum undirboðum, m.a. hefur endurtekið verið kvartað til samkeppnisyfirvalda. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að það sé kannað hvar rót vandans liggur í raun, hver sé raunveruleg ástæða þessarar erfiðu stöðu Íslandspósts.

Nú er í gangi sérstök stjórnsýsluúttekt á rekstrinum að ósk fjárlaganefndar Alþingis þar sem farið verður vandlega yfir rót þessa rekstrarvanda, en Ríkisendurskoðun hefur einmitt bent á að orsök fjárhagsvanda Íslandspósts sé alls ógreind og ekki liggi fyrir hvort vandinn stafi af samkeppnisrekstri eða starfsemi innan einkaréttar. Hvernig hefur aðskilnaður milli samkeppnisrekstrar og einkaréttar verið háttað hjá fyrirtækinu, er spurt. Er það á hreinu að einkarétturinn hafi ekki verið að niðurgreiða samkeppnisrekstur?

Þessa dagana eru heildarlög til breytinga á póstþjónustu í meðferð þingsins og það er eðlilegt að velta því upp hvers vegna þessi viðbrögð nú við tapi af erlendum póstsendingum eru ekki einfaldlega hluti af því stóra frumvarpi. Hæstv. samgönguráðherra, ráðherra póstmála, hefur svarað því til aðspurður hér í þingsal að löngu eftir að frumvarpið sem varðar heildarendurskoðun á póstþjónustu var tilbúið og komið til þingsins, þ.e. síðastliðið haust, hafi borist ákall frá Íslandspósti um að pakkasendingar erlendis frá væru að valda þessum vanda og við því ákalli væri verið að bregðast með þessu frumvarpi sem fær hér skyndimeðferð í gegnum þingið. Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar með forsvarsmönnum Íslandspósts um þetta mál í síðustu viku kom fram að vissulega hefði mikil aukning verið í póstsendingum frá Asíu. Sú aukning hefði átt sér stað nokkur undanfarin ár og síðan dró eitthvað úr því á síðasta ári. Mín ágiskun um það af hverju þessi tillaga kemur fram núna, sem skilar sér í þessu frumvarpi, en ekki einhverjum árum fyrr, er svo sem ekkert betri en annarra, en það mætti ímynda sér að harðnandi gagnrýni á rekstur félagsins, og á linkind stjórnvalda sem felst í því að hlaupa sífellt undir bagga varðandi rekstrarvandræði án þess að gera stífar kröfur um gegnsæi og aðhald á móti, spili þar inn í. Það er vissulega jákvætt að með þessum viðbrögðum þá munu þeir greiða sem til kostnaðarins stofna en ríkissjóður þarf ekki að hlaupa undir bagga enn og aftur. Ég held að við getum öll verið sammála um að við viljum ekki að ríkissjóður, þ.e. íslenskir skattgreiðendur fyrst og fremst, séu að niðurgreiða erlenda póstverslun í samkeppni við innlenda verslun. Ég held að við getum öll verið sammála um að það er ekki eðlilegt.

Eftir er álitamálið: Er hér raunverulega um gjaldtöku sem endurspeglar raunkostnað við þessar sendingar að ræða og ekkert annað? Ef þessar breytingar eru nauðsynlegar eru þær furðuseint fram komnar. Þær hefðu átt að koma fram þegar þessi taprekstur hófst fyrir alvöru. Það er líka nokkuð sem þarf að taka með í reikninginn að þetta snýst ekki bara um tap á sendingu frá þróunarlöndunum, svokallaðar Kínasendingar, sem margir þekkja, heldur líka frá vestrænum ríkjum, þó það tap sé vissulega töluvert minna. Spyrja má: Er það tap til komið af því að erlendar vestrænar póstþjónustur telja kostnaðargrunn Íslandspósts of háan og vilja ekki borga það gjald? Hér hefur nefnilega verið byggt upp ansi dýrt dreifikerfi í þágu samkeppnisrekstrar eins og kunnugt er.

Þessi umræða verður klárlega tekin þegar heildarlög um póstþjónustu verða rædd hér í þinglegri meðferð. En þetta skiptir máli og það er mjög mikilvægt að með þessum lagabreytingum sé ekki verið að gefa Íslandspósti færi á að borga í framtíðinni upp vondar fjárfestingar og lélegan rekstur fortíðar. En við þurfum að bregðast við stöðunni eins og hún er núna og lykilatriðið er að tryggja að kostnaðargrunnurinn sé réttur og gegnsær.

Í umsögn Neytendasamtakanna um þetta frumvarp kemur fram að þau óttast að heimild til að leggja viðbótarburðargjöld á sendingar frá útlöndum geti leitt til þess að vöruverð hækki innan lands. Þau gagnrýna að stjórnvöld ætli að drífa í gegn lagabreytingu án þess að fyrir liggi nauðsynlegir útreikningar. Þau segja lítið því til fyrirstöðu að með sérstakri gjaldskrá vegna erlendra sendinga verði lagt meira á neytendur en sem nemur kostnaði við að veita þjónustuna, það vanti einfaldlega útreikninga til að styðja fullyrðingar um þetta tap Póstsins.

Breytingar þær sem umhverfis- og samgöngunefnd leggur til í meðferð málsins eru skref í rétta átt. Eftir stendur spurningin: Af hverju var þessi kostnaðargrunnur ekki tilbúinn og lagður fyrir fulltrúa umhverfis- og samgöngunefndar nú þegar þessi vinna stóð yfir?

Mig langar að lokum að nefna að Neytendasamtökin og ýmsir fleiri aðilar hafa nefnt aðrar leiðir færar til að stemma stigu við rekstrartapi af þeirri þjónustu sem hér um ræðir, nefnilega þá að beita sér fyrir því að Alþjóðapóstsambandið endurskoði skilgreiningu aðildarríkja. Verið er að vísa til þess að samtökin skilgreina Kína sem þróunarríki sem fela í sér óhagstæða skiptingu póstburðargjalda fyrir póstþjónustu fyrirtækja hérlendis. Ég tek heils hugar undir þá ábendingu. Ég veit að önnur vestræn ríki eru að skoða þetta. Ég veit að við munum vera þar á meðal, en ég vænti þess að þessi bolti sé tekinn áfram af íslenskum yfirvöldum og það í fullri alvöru.

Að lokum þetta: Ég mun styðja þetta mál en jafnframt tala fyrir því og vinna að því að við heildarendurskoðun á lögum um póstþjónustu verði nánar farið ofan í þessi álitamál og þær ábendingar sem hér hafa verið reifaðar.