149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[19:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega málið, þetta er flókið og við höfum stuttan tíma til að vinna þetta. Við fengum nokkuð góðar upplýsingar um stöðuna, en þær voru allar vafðar inn í alls konar efasemdir og um það bil tölur o.s.frv. Þegar lagt er til að þetta gjald eigi bara að standa undir þeim kostnaði sem fellur til, sem aukaendastöðvargjald, og tölurnar eru um það bil tölur, þá er ég pínu varkár miðað við fyrri reynslu af þessum málum í kringum lánveitinguna. Þá voru svörin ekki skýr og eru ekki enn þá orðin skýr og því er ég varkárari en ella. Ef það væri þetta einstaka tilvik og ekki hefði verið um lán að ræða og ekki þessi saga um ónákvæmnina þá myndi ég telja þetta mjög góða lausn. Ég tel þetta samt góða lausn en ég tel að hún sé ekki nægilega nákvæm, sérstaklega út af þessum tíma sem Íslandspóstur hefur haft til að koma með nánari greiningar. Þær eru samt ekki komnar. Þess vegna dreg ég í efa að viðbótarendastöðvargjaldið muni standa undir þessum kostnaði, alla vega ekki nákvæmlega. Ég veit ekki hvorum megin við núllið það dettur, ég held að það verði örugglega ekki við núllið í hverri sendingu. Það er kannski allt í lagi, að jafnaði munar það kannski ekki mörgum krónum, ég veit það ekki, en ég velti fyrir mér hvorum megin efinn ætti að vera varðandi gjaldið, hvort við ættum að vera varkárari í því að hækka gjaldið eða hvort það ætti að ofmeta það á einhvern hátt. Ég myndi alla vega mæla með varkárni.