149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[19:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef komið að hér í andsvörum efast ég hvorki um nauðsyn þess að samþykkja þetta frumvarp né heldur lausnina eins og hún er útlögð. En ég tek ekki undir nefndarálitið, ekki út af innihaldi þess heldur út af ákveðnum efasemdum sem ég hef um önnur atriði sem tengjast þessu, eins og t.d. það að ef þessi kostnaður, þetta aukaburðargjald, viðbótarburðargjald, á bara að dekka raunkostnað ætti Íslandspóstur tvímælalaust að geta útskýrt hversu mikið tap er vegna þessara sendinga. Það hefur Íslandspóstur ekki getað gert. Ef það væri bara fyrir þetta frumvarp væri ég kannski ekki með alveg eins miklar efasemdir vegna eftirlits Póst- og fjarskiptastofnunar en vegna þess að þetta er endurtekið mál frá áramótum og fyrir það þegar Íslandspósti var veitt lán og Íslandspóstur gat ekki heldur svarað þeirri sömu spurningu á þeim tíma, og nú nokkrum mánuðum seinna er svarið ekki enn þá komið, sé ég ekki að það sé auðvelt að komast að því hver kostnaðurinn á bak við þetta sé og þar af leiðandi ekki hægt að kvitta undir að þetta gjald standi einungis undir þeim kostnaði sem fylgi þessum sendingum en ekki neinum öðrum kostnaði. Þess vegna myndi ég ráðleggja varfærni í upphæð þessa gjalds. Það ætti að vera augljóst öllum að að sjálfsögðu á kaupandi að greiða allan sendingarkostnað og ekki að vera nein niðurgreiðsla af hálfu skattgreiðenda á svona sendingum. Það hlýtur þá að vera krafa að eitthvert gagnsæi sé í því hvernig gjöldin leggjast á, hvernig þau eru reiknuð.

Það eru einmitt fjölmörg önnur gjöld sem eru innheimt, þ.e. umsýslugjald, tollskrárgjald og ýmislegt svoleiðis. Neytendasamtökin töldu upp heilan haug af aukagjöldum sem geta lagst á í mismunandi flokkum og hvaðeina. Og eins og framsetningin er á þessum sendingum og á vef Íslandspósts og fleiri stöðum, t.d. líka hjá tollinum, er mjög erfitt að komast að því, þegar ég panta eitthvað að utan, hver gjöldin eru þegar upp er staðið hér á Íslandi. Ég klára ekki öll gjöldin þegar ég kaupi vöruna, þó að það standi póstsending og umsýsla á reikningnum mínum. Þegar ég kaupi t.d. á vefsíðu erlendis bætast við aukagjöld í umsýslu og fleira sem kemur ekki fram þegar ég kaupi vöruna heldur leggst við og er mjög erfitt að komast að því hver raunkostnaður er þegar allt kemur til alls.

Það að hafa öll þessi mismunandi gjöld, umsýslugjöld og ýmislegt svoleiðis, tel ég vera ákveðinn hvata til að viðhalda tilgangi gjaldsins í stað þess að hagræða — í stað þess að búa til vélknúna verksmiðju sem dælir sjálfkrafa út pökkunum þegar náð er í þá. Þá væri hægt að hafa opnunartíma sveigjanlegri þar sem ekki þyrfti að vera viðvera þar. Mjög nýlega, þann 1. apríl, var afgreiðslutími á höfuðborgarsvæðinu styttur á pósthúsum, ekki er lengur hægt að fara þegar þú ert á leið í vinnuna að ná í pakka því að það opnar ekki fyrr en kl. 10. Það er ekkert voðalega skemmtilegt. Þegar allt kemur til alls setti ég ákveðinn fyrirvara við þessi tvö atriði í meðferð málsins, þ.e. annars vegar það að geta ekki útskýrt hversu mikill kostnaður fylgdi sendingum í raun og hins vegar þá athugasemd sem ráðuneytið setti fram um að við værum á gráu svæði lagalega. Ráðuneytið taldi það þó vera í lagi, því að við værum ekki á gráu svæði hvað það varðar að standa við skuldbindingar okkar varðandi önnur lönd. Þetta breytti því ekki neitt. En við erum hins vegar að leggja á gjald umfram önnur lönd sem mætti túlka á einhvern hátt sem toll út frá þeim samningum sem eru í gangi. En þetta væri flókið og ekki hægt að útskýra nákvæmlega hvaða lagalega gráa svæði þetta væri, það væri samt þarna, þar til búið væri að gera einhverja fyrirvara við ákveðnar gjaldtökugreinar á aðalfundi Alþjóðapóstsambandsins á næsta ári, þannig að við værum alla vega á því gráa svæði lagalega þar til þá. Hvort eitthvað verður af því, það var ekki hægt að svara því.

Út af þessum atriðum tek ég ekki undir nefndarálitið, ekki út af því að ég telji að lausnin eða annað sé rangt heldur út frá skorti á svörum við þessum spurningum sem ég taldi augljóst að þyrfti að svara til þess að afgreiða málið. Ég vildi bara gera þessa athugasemd. Annars tel ég að sjálfsögðu nauðsynlegt að kaupandi greiði allan sendingarkostnað. Enginn á að efast um það hvert rétt gjald er og hvort það standi undir þeim samningum sem við erum hluti af út af þessu lagalega gráa svæði, það er það sem ég á við.