149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

landlæknir og lýðheilsa og réttindi sjúklinga.

757. mál
[19:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það má segja að tilefni þessarar frumvarpsgerðar sé að mönnum hefur þótt vera ákveðinn óskýrleiki í afgreiðslu þessara mála, það hafi tekið of mikinn tíma og verið of þunglamalegt og ekki þjónað meginmarkmiðum, þ.e. þessum almennu markmiðum sem lúta að gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustunnar. Það sem hv. þingmaður bendir hér á og lýtur að því hvað sé valkvætt og hvað sé skylda o.s.frv. við þessa breytingu á lögum þeim sem hér eru til umfjöllunar, þá verð ég að vísa til þess að hv. velferðarnefnd fjalli sérstaklega um þann þátt og ég held að það sé full ástæða til. Það þarf auðvitað að gæta sérstaklega að því þegar verið er að fjalla um réttindi að halda vel utan um þau mál.

Það sem við erum að gera með þessu frumvarpi, og hér erum við að tala um þá sem best þekkja til og hafa unnið samkvæmt þessum lögum, er að styrkja og undirstrika hlutverk embættisins í því að greina kvartanir og leiðbeina einstaklingum ef erindin eru þess eðlis að þau eigi frekar undir stofnunina sem um ræðir, þ.e. sigta betur frá, ef svo má að orði komast, og greina betur en nú hefur gefist kostur á að gera hvert viðkomandi kvörtun á að berast eða við hvaða aðila hún á helst erindi. Þetta er einróma tillaga þessarar nefndar enda kemur það fram í greinargerð með frumvarpinu að fara þessa leið. Næstu skref eru í raun og veru umsagnarferli og síðan þingleg meðferð þar sem væntanlega verður fjallað um það mál sem hv. þingmaður nefnir hér.