149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

landlæknir og lýðheilsa og réttindi sjúklinga.

757. mál
[20:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður um þessa tímafresti. Það er auðvitað alltaf viðkvæmt þegar frestur af þessu tagi er skertur með einhverju móti. Af þeim sökum er það gert afar varfærnislega hér. Eins og fram kom í minni framsögu áðan þá eru tímafrestir skemmri á Norðurlöndunum en hér hefur verið lengst af, annaðhvort fimm ár eða tvö ár en hér 10 ár. Hér er lagt til að tekið sé þetta skref að það sé heimilt að taka kvörtun til meðferðar í fimm ár en ef sérstakar ástæður mæli með því þá sé ekki óheimilt að taka viðkomandi kvörtun til efnislegrar umfjöllunar. Þar er sleginn ákveðinn varnagli.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um mögulega skörun eða grátt svæði gagnvart persónuverndarlögum þá hef ég ekki áhyggjur af því, a.m.k. ekki í fyrstu umferð.

Hv. þingmaður spurði líka um aðkomu notenda að þessari skoðun sem hér var gerð og tillögunni sem hér er til umfjöllunar. Leiðarljósið í þessu efni eru sjónarmið sem lúta að skýrleika og því meginverkefni embættis landlæknis sem snýr að gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustunnar með almennum hætti. Þarna erum við því að skerpa málið umtalsvert. Ég geri ráð fyrir því að í opnu umsagnarferli nefndarinnar og Alþingis geti komið athugasemdir frá þeim aðilum sem hv. þingmaður nefnir. Það er náttúrlega öllum til hagsbóta að ferlar séu gagnsærri og aðgengilegri.

Hv. þingmaður spyr síðan um þá innviði sem eru fyrir hendi í stofnununum. Það er alveg rétt sem kemur fram hjá þingmanninum að þar þarf víða að gera betur. En þetta er (Forseti hringir.) partur af innleiðingu gæðaáætlunar embættis landlæknis.