149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

landlæknir og lýðheilsa og réttindi sjúklinga.

757. mál
[20:04]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Við vitum að neytendur, notendur heilbrigðisþjónustu, eru einstaklingar sem eru í vaxandi mæli meðvitaðir um rétt sinn. Í ljósi þess kannski má segja að athugasemdum, kvörtunum, ábendingum, fjölgar. Það verður að segjast eins og er, og haft er á orði alla vega, að leiðin frá lækninum til lögfræðingsins virðist alltaf vera styttast. Lögfræðistofur á Íslandi hafa jafnvel fundið sér sóknarfæri á þessu sviði. Hvað sér ráðherra fyrir sér? Munu þessar breytingar á lögum hafa einhverjar breytingar í för með sér gagnvart afstöðunni til þessa? Mun ráðherra beita sér fyrir því að þetta bótakröfuferli verði eitthvað líkara t.d. því sem við þekkjum í Svíþjóð? Þar annast eftirlitsstofnun það að semja um bætur vegna óhappatilvika sem verða í stað þess að leiðin liggi beint til lögfræðings.