149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

landlæknir og lýðheilsa og réttindi sjúklinga.

757. mál
[20:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru auðvitað tvær hliðar á öllum málum. Annars vegar er mikilvægt og eftirsóknarvert að almenningur sé meðvitaður um sinn rétt gagnvart öllum þeim kerfum sem við höfum hér í samneyslunni, hvort sem það er heilbrigðisþjónusta eða skólakerfið eða hvað það er. En um leið og ferlarnir til að koma ábendingum á framfæri eru opnari, aðgengilegri og eru partur af daglegri umgengni almennings við þá þjónustu, má ætla að samskiptin verði meira af því tagi að ábendingar og kvartanir séu til þess að bæta þjónustuna en ekki til að sækja rétt sinn með öllu því sem því fylgir. Ég tel að þessi breyting sem lögð er til á þessum lögum sé einmitt til að skerpa á því að notendur þjónustunnar geti með þessum hætti frekar verið til þess að styðja við uppbyggingu í því að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar, hver það er sem veitir hana á hverjum tíma.