149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

landlæknir og lýðheilsa og réttindi sjúklinga.

757. mál
[20:07]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og fagna því að þetta mál sé komið fram. Ég held að þetta sé ágætismál og gott að skerpa á hlutverkum með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í tvö atriði í frumvarpinu. Það er í fyrsta lagi á svipuðum nótum og hv. þm. Guðjón Brjánsson kom inn á með tímafrestina, hvort það hefði verið rætt í ráðuneytinu eða við samningu frumvarpsins hvort fara ætti fetið í að stytta frestinn og fara kannski frekar niður í sjö ár eða eitthvað þess háttar í þessu skrefi. Og hins vegar hvort, og hér spyr sá sem ekki veit, sömu tímafrestir gildi þá um aðrar kvartanir um heilbrigðisþjónustu, til að mynda þær kvartanir sem fara beint til stofnananna, hvort þær séu þá bundnar sömu frestum eða hvort það sé jafnvel ekki skrifað sérstaklega neins staðar í lög.

Eins og kemur fram gera menn ekki endilega ráð fyrir því með framlagningu þessa frumvarps að hér eftir muni allar athugasemdir um heilbrigðisþjónustu fara til landlæknis. Það er einmitt ekki ætlanin. En þá þarf kannski að taka fram að sömu frestir gildi um kvartanir sem ekki fara þangað.