149. löggjafarþing — 93. fundur,  10. apr. 2019.

landlæknir og lýðheilsa og réttindi sjúklinga.

757. mál
[20:11]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Frú forseti. Þegar ég sá að gera ætti umræddar breytingar sem hæstv. ráðherra hefur lagt hér fram varðandi rétt sjúklinga til að kvarta til landlæknis, þá gladdist ég í fyrstu því að ég hélt að hér ætti loks að gera réttarbót til handa sjúklingum og notendum heilbrigðiskerfisins, sem telja að kerfið hafi ekki uppfyllt skyldu sína nægjanlega vel gagnvart þeim, og jafnvel að auka ætti upplýsingagjöf til sjúklinga um hvernig best væri að haga málum innan kerfisins eftir áföll og mögulega læknamistök.

Það er miður að umræddar breytingar virðast miða að því að draga úr réttindum sjúklinga og gera þeim erfiðara fyrir að kvarta til landlæknis og fá úrlausn mála á góðan og öruggan hátt. Ég sé ekki af því sem lagt er fram hér í dag að eitthvert úrræði eigi að koma í stað þess sem hér er tekið af sjúklingum, heldur eigi að gera það erfiðara fyrir þá að sækja rétt sinn í kjölfar mistaka innan heilbrigðiskerfisins.

Það er ekki auðveld lífsreynsla að vera notandi heilbrigðiskerfisins og það er sérstaklega erfitt ef upp koma mistök eða torveld samskipti sjúklinga við heilbrigðisstarfsfólk. Álag á sjúklingum og fjölskyldum þeirra er mikið. Það er aldrei auðveld lífsreynsla þurfa að leggjast inn á spítala og það auðveldar ekki þá reynslu að þurfa að sækja sér þjónustu innan heilbrigðiskerfisins eða félagslega kerfisins, sem veita á stuðning þegar sjúklingar sjá fram á að vera lengi að ná sér eftir langvarandi veikindi eða stórar aðgerðir, hvað þá þegar sjúklingar þurfa að reiða sig á slíkan stuðning í kjölfar læknamistaka, sem geta leitt til þess að sjúklingar eru lengur að ná sér en gert var ráð fyrir. Getur það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á lífsgæði þeirra. Það tekur á að vera veikur og það tekur gríðarlega mikið á að þurfa að nýta þá litlu orku sem sjúklingur hefur í að finna út úr hvernig best sé að hátta málum hans innan kerfisins þegar eitthvað kemur upp á.

Í þessu samhengi vil ég einnig benda á að ég get ekki séð að haft hafi verið samráð við notendur heilbrigðiskerfisins eða þá sem hafa þurft að fara þá leið að kvarta til landlæknis. Af því dreg ég þá ályktun að umræddar breytingar séu ekki í hag sjúklinga heldur séu þær gerðar til þess að létta álagi af landlæknisembættinu. Eflaust hefði mátt fara skynsamlegri leið en að torvelda leiðir sjúklinga til að koma kvörtunum á framfæri.

Ég neita því ekki að kerfið er vissulega þungt í vöfum vegna mikils álags, en því ætti að vera enn meiri áhersla lögð á að bæta kerfið og jafnvel bæta inn auknum réttindum til handa sjúklingum.

Að undanskilinni þeirri heimild aðstandenda látinna sjúklinga að beina athugasemdum til landlæknis, sem bætt er inn í lögin, þá bera þessar breytingar með sér að dregið sé allverulega úr réttarvernd sjúklinga sem telja sig þurfa að kvarta um eitthvað sem miður hefur farið. Á meðan ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um að stofna embætti umboðsmanns sjúklinga eða einhvers konar öryggisnet sett upp fyrir sjúklinga sem verða fyrir læknamistökum þá sé ég því miður ekki hvernig réttindavernd sjúklinga á að vera tryggð ef umrædd breyting sem hér er lögð fram verður að veruleika.

Hæstv. ráðherra nefndi í svörum til mín áðan að fyrir lægi að þetta yrði rætt frekar og vona ég að í þeirri meðferð verði gerðar breytingar samhliða breytingum á umræddu kvörtunarferli til landlæknis sem tryggja réttindavernd sjúklinga með fullnægjandi hætti.